Rauðskinnar heyri sögunni til

epa08525643 A Redskins logo outside FedEx Field, home of the Washington Redskins American football team, in Landover, Maryland, USA, 03 July 2020. On 02 July, a FedEx Field spokesperson said they asked the Washington Redskins to change their team name, which is a dictionary-defined racial slur for Native Americans. On 03 July, the Redskins announced they are 'reviewing' the team name.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA

Rauðskinnar heyri sögunni til

12.07.2020 - 10:00
Bandaríska ruðningsliðið Washington Redskins úr NFL-deildinni vestanhafs mun ganga í gegnum nafnabreytingu á allra næstu dögum. Nafn liðsins hefur sætt gagnrýni árum saman.

Nafnið er komið frá George Preston Marshall, en stytta af honum sem stóð fyrir utan R.F.K.-leikvanginn, fyrrum leikvang Redskins, var fjarlægð á dögunum eftir að ítrekuð skemmdarverk höfðu verið unnin á henni. Marshall keypti lið Boston Braves á fjórða áratug síðustu aldar, færði liðið til Washington og breytti nafni liðsins í Redskins, sem þýðir einfaldlega rauðskinnar. Það er talið niðrandi orð yfir frumbyggja í Ameríku.

Nafn liðsins hefur sætt gagnrýni í fjölmörg ár en stjórnarmenn liðsins hafa staðfastlega neitað því að nafnið sé með nokkrum hætti niðrandi í garð frumbyggja. Nafnið sé hluti af sögu félagins og því beri ekki að endurskoða það.

Breyting hefur þó orðið á eftir mikla mótmælaöldu minnihlutahópa í Bandaríkjunum í kjölfar morðsins á George Floyd í maí. Styrktaraðilar Redskins-liðsins hafa stutt félagið með þögn sinni, líkt og stjórnarmenn í NFL-deildinni í gegnum tíðina, en FedEx, aðalstyrktaraðili Redskins, fór aftur á móti opinberlega fram á nafnabreytingu í síðustu viku.

Dan Snyder, eigandi liðsins, sagði skömmu síðar að nafnið yrði endurskoðað og samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla í gær má búast við tilkynningu um nýtt nafn „á allra næstu dögum“.

Indjánarnir fari sömu leið

Sömu sögu er að segja af hafnaboltaliðinu Cleveland Indians, eða Indjánarnir, sem hafa keppt undir því nafni í yfir 100 ár, frá 1915. Aðeins örfáum klukkustundum eftir tilkynningu Redskins sendi hafnaboltafélagið sömuleiðis frá sér tilkynningu þar sem segir að félagið sé opið fyrir því að breyta nafni þess.

Indians hafa, líkt og Redskins, lengi sætt gagnrýni vegna nafnsins en gefið lítið fyrir hana. Félagið tók þó það skref árið 2018 að hætta að merkja búnað með lukkudýrinu Chief Wahoo sem prýddi gjarnan búninga liðsins en sú rauða mynd af indjána þótti sérstaklega móðgandi.

Aðeins lengri bið gæti þó verið eftir nafnabreytingu í Cleveland þar sem fregnir vestanhafs herma að breytingin gæti mögulega ekki komist í gegn fyrr en árið 2022.

Mynd með færslu
 Mynd: Cleveland Indians
Chief Wahoo sem tekinn var úr umferð hjá Cleveland Indians árið 2018.