Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mjótt á munum samkvæmt útgönguspám en Duda leiðir

12.07.2020 - 20:22
Mynd: RÚV / RÚV
Samkvæmt fyrstu útgönguspám í Póllandi leiðir Andrzej Duda með 50,4 prósent atkvæða. Fylgi Rafal Trzaskowski mælist 49,6 prósent.

Fyrstu útgönguspár voru birtar skömmu eftir klukkan sjö í kvöld. Búast má við fyrstu tölum í fyrramálið.

Langar raðir mynduðust þegar kjörstaðir voru opnaðir klukkan sjö í morgun. Kjörsókn var 68,9% og hefur aldrei verið jafnmikil í Póllandi. Önnur umferð kosninganna var í dag og stóð valið á milli tveggja ólíkra frambjóðenda. Annars vegar var það sitjandi forseti, íhaldsmaðurinn Andrzej Duda og hins vegar hinn frjálslyndi borgarstjóri Varsjár, Rafal Trzaskowski.

Yfir fjögur þúsund og fimm hundruð Pólverjar á Íslandi skráðu sig í kosningar í sendiráðinu í Reykjavík í dag, mun fleiri en í fyrri umferð kosninganna sem fór fram fyrir tveimur vikum.