Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hvalir gera sig heimakomna í höfninni á Sauðárkróki

12.07.2020 - 11:41
Mynd: Árni Gunnarsson / Árni Gunnarsson
Hrefnur og hnúfubakar hafa síðustu daga gert sig heimakomna í höfninni á Sauðárkróki. Hafnarvörður gantast með að rukka þurfi skepnurnar fyrir hafnarstæði.

Hvalirnir hafa undanfarið leikið listir sínar í nokkurra metra fjarlægð frá landi. 

„Þeir hafa verið hérna býsna mikið á ferðinni, við sáum þetta fyrst í fyrra þá komu hingað hrefnur tvær inn og vöktu mikla athygli og svo hefur þetta verið bara núna trekk í trekk,“ segir Pálmi Jónsson, yfirhafnarvörður.

„Þeir hafa verið að koma alveg inn í höfnina og taka pláss frá skipunum [...] ég þarf bara að senda þeim reikning fyrir hafnargjöldum.“

Eru þeir að éta hérna inni í höfninni eða bara sýna sig? „Þeir eru að éta smásíld, gaman að sjá þá smala henni og svo spýtast mörg hundruð fiskar upp, svo kemur kjafturinn galopinn.“

Snorri Snorrason, skipstjóri, segir hvalina hafa aðallega angrað strandveiðibáta og aðra minni báta. Hvalirnir slíti slóðana frá færarúllunum og jafnvel línuna. Þá hafi sumir lent í því að sigla á þá. „Þetta er orðið svo mikið af þessu og væri nú bara guðs laun að fara að grisja þetta aðeins, ég er ekki að tala um að útrýma þessu en það mætti fækka,“ sagði Snorri.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV