Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Franskir njósnarar á eftirlaunum dæmdir í fangelsi

12.07.2020 - 15:10
epa05675860 The Eiffel Tower stands dark, as its traditional night-time illumination is switched off in support of the victims of the Aleppo siege in Syria, in Paris,  France, 14 December 2016. The city of Paris has switched off the lights to its key
 Mynd: EPA
Tveir fyrrum starfsmenn frönsku utanríkisleyniþjónustunnar hafa verið dæmdir í fangelsi fyrir að deila leynilegum upplýsingum með kínverskum stjórnvöldum.

Mennirnir, sem báðir eru í kringum sjötugt, voru ákærðir í desember árið 2017, úrskurðaðir í gæsluvarðhald en síðar sleppt gegn greiðslu tryggingar. Agence France Presse og sjónvarps- og útvarpsstöðin France Info greina frá. 

Henri M. var dæmdur í átta ára fangelsi síðastliðinn föstudag. Hann var skipaður útsendari frönsku utanríkisleyniþjónustunnar í Peking árið 1997, og hafði aðsetur í franska sendiráðinu þar. Ári síðar var hann kallaður heim þegar upp komst um ástarsamband hans við kínverskan túlk sendiherrans. Nokkrum árum síðar komst Henri á eftirlaun, giftist túlknum og fluttist til Hainan í Suður-Kína.

Pierre-Marie var dæmdur í tólf ára fangelsi. Hann var handtekinn á Zürich-flugvelli með mikið reiðufé eftir að hafa átt fund með Kínverja á eyju í Indlandshafi. Eiginkona hans hefur einnig verið dæmd í fjögurra ára fangelsi, þar af tvö ár skilorðsbundin. 

Samkvæmt Reuters fóru réttarhöldin fram fyrir luktum dyrum og dómsgögn hafa ekki verið opinberuð. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV