Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Forskot Dudas vex lítið eitt í annarri útgönguspá

epa08541702 People cast their ballot at a polling station during the presidential elections run-off in Bukowina Tatrzanska, Poland, 12 July 2020. Poles head to the polls for the second round of the presidential elections.  EPA-EFE/Grzegorz Momot POLAND OUT
Prúðbúnir Pólverjar á kjörstað í Bukowina Tatrzanska Mynd: EPA-EFE - PAP
Forskot Andrzejs Dudas, Póllandsforseta, í forsetakosningunum eystra, vex lítið eitt á milli fyrstu útgönguspár og þeirra næstu, sem birt var á miðnætti að pólskum tíma. Samkvæmt nýju könnuninni hefur Duda fengið 50,8 prósent atkvæða, en Rafal Trzakowski, borgarstjóri Varsjárborgar, 49,2 prósent. Skekkjumörk í könnuninni, sem unnin eru af fyrirtækinu Ipsos, eru tvö prósentustig.

Kjörsókn var afar góð, 68,9 prósent, og hefur aldrei verið meiri í pólskum forsetakosningum. Langar biðraðir mynduðust við kjörstaði þegar þeir voru opnaðir í morgun.

Yfirkjörstjórn hefur tilkynnt að engar opinberar niðurstöður verði birtar fyrr en öll atkvæði hafa verið talin, þar á meðal utankjörfundaratkvæði. Því munu úrslit ekki liggja fyrir fyrr en síðdegis á morgun eða jafnvel þriðjudag.

Fjöldi fólks greiddi atkvæði utan kjörfundar, þar á meðal stórir hópar Pólverja sem búsettir eru erlendis. Útgönguspárnar ná ekki til þessara kjósenda og því gætu úrslitin reynst eitthvað frábrugðin því sem þær segja fyrir um, á hvorn veginn sem er.