„Ég var ekki að finna gleðina“

Mynd: FRÍ / FRÍ

„Ég var ekki að finna gleðina“

12.07.2020 - 10:15
Vigdís Jónsdóttir, sleggjukastari, bætti Íslandsmetið í sleggjukasti í fjórða skipti þetta sumarið í dag. Vigdís segir að hún hafi verið nálægt því að hætta eftir erfitt tímabil fyrir skömmu en er nú með háleit markmið fyrir framtíðina.

Vigdís Jónsdóttir bætti eigið Íslandsmet síðast á fimmtudag, þegar hún kastaði sleggjunni 62,69 metra. Þá bætti hún eigið met frá því fyrr í sumar um 11 sentímetra, en í gær bætti hún metið í fjórða sinn í sumar og nú um einn sentímeter, þegar hún kastaði 62,70 metra. 
 
„Við skulum segja að við látum þennan sentímeter duga í dag. Þetta er ekki alveg það sem við vildum. Miðað við tilfinninguna á fimmtudaginn bjuggumst við við því að þetta yrði ennþá lengra, hittum ekki alveg á það í dag. En ég meina bæting er bæting sama hvað.“ segir Vigdís.

Vigdís, sem stundar nám við háskólann í Memphis í Bandaríkjunum, segir að tímabilið eftir að hún kom heim vegna kórónuveirufaraldursins hafi reynt á hana og hún hafi verið nálægt því að hreinlega hætta.

„Þegar ég kom heim gat ég ekki gert neitt og við það var allt að hrynja, ég var að kasta ótrúlega stutt á æfingum og ég var ekki að finna gleðina í því að sjá árangur. Að geta ekki gert neitt er bara voðalegur verkur í hjartað. Svo eru síðustu 2-3 ár búin að vera mjög erfið hjá mér. Ég er ekki búin að ná að bæta mig almennilega síðan 2017,“ segir Vigdís.

Gleðina hafi hún hins vegar fundið aftur og er nú með háleit markmið fyrir framtíðina.

„Að vera bara á toppnum úti í Bandaríkjunum og vera á lista í Evrópu að komast á fullorðinsmótin. Ég vil bara sjá nógu stóra bætingu hjá mér að ég komist inn á þau mót líka.“ segir Vigdís.

Íslandsmetskast Vigdísar og ummæli hennar má sjá í spilaranum að ofan.

Tengdar fréttir

Frjálsar

Bætti Íslandsmetið í annað sinn á þremur dögum