Annar sigur Víkinga kom í Kórnum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Annar sigur Víkinga kom í Kórnum

12.07.2020 - 21:06
Víkingur R. vann 2-0 sigur á HK í seinni leik kvöldsins í Pepsi Max-deild karla í fótbolta. Óttar Magnús Karlsson skoraði sitt sjötta mark í jafnmörgum leikjum í deildinni.

Liðin voru jöfn að stigum fyrir leik kvöldsins með fimm stig hvort í 8.-9. sæti deildarinnar. Þau höfðu hvort um sig aðeins unnið einn leik af fyrstu fimm leikjum sínum.

Nú þegar fyrsti fjórðungur mótsins er að klárast fer því að skýrast hvort lið verði í efri eða neðri hlutanum og leikurinn því mikilvægur fyrir framhald beggja liða.

HK var sterkari aðilinn í upphafi leiks og var Valgeir Valgeirsson næstur því að skora úr þeirra röðum. Þeim tókst þó ekki að setja mark sitt á leikinn og refsaðist fyrir það þegar Viktor Örlygur Andrason kom Víkingi í forystu eftir aukaspyrnu utan af velli. Mikill vandræðagangur var á bæði varnarmönnum og markverði HK og refsaðist þeim fyrir það.

1-0 stóð í leikhléi fyrir gestina en Óttar Magnús Karlsson tvöfaldaði forystu Víkinga með sínu sjötta marki í jafnmörgum leikjum eftir að hann prjónaði sig í gegnum vörn HK á 62. mínútu. Óttar er þar með jafn Dönunum Patrick Pedersen úr Val og Thomas Mikkelsen úr Breiðabliki sem markahæsti leikmaður deildarinnar.

Mörkunum fjölgaði ekki frekar og vann Víkingur því 2-0 sigur. Eftir hann er liðið með átta stig í 6. sæti deildarinnar en HK er í því níunda með fimm stig, þremur frá fallsæti.