Af hverju eru glæpasögur svona vinsælar?

Mynd: Lilja Sigurðardótti4r / Lilja Sigurðardóttir

Af hverju eru glæpasögur svona vinsælar?

12.07.2020 - 13:03

Höfundar

Hvað gerir glæpasögur svo vinsælar? Eru glæpasögur góðar bókmenntir eða er það fyrst og fremst endurtekningin með tilbrigðum, hið kunnuglega, sem laðar að sér lesendur?

Glæpasögur eru sú bókmenntagrein sem hvað mest hefur eflst á Íslandi síðustu áratugi. Höfundum fjölgar, sögurnar verða fjölbreytilegri og alls staðar á litla Íslandi virðist mega galdra fram sögusvið fyrir ótrúlegustu glæpi.

Fulltrúi höfunda, fulltrúi útgefenda og fulltrúi fræðanna mættu nýverið í þáttinn Orð*um bækur og leituðu sameiginlega að ástæðum þeirra vinsælda sem glæpasögur njóta. Glæpasögur hafa notið mikilla vinsælda nánast frá því að bókmenntagreinin tók að þróast fyrir alvöru, seint á nítjándu öld, og tók síðan stökkið á 20. öldinni. Og enn virðast glæpasögur vera vinsælasta lesningin.

Glæpasögur snúast um lífið sjálft

Katrín Jakobsdóttir lauk BA-námi sínu í íslensku árið 1999 með lokaritgerðinni „Glæpurinn sem ekki fannst. Um sögu og þróun íslenskra glæpasagna“ og kom ritgerðin það sama ár út á bók. Í meistararitgerð hennar, „Ömurlegt, íslenskt morð: Feður, synir og fjölskyldur í samfélagi íslenskra glæpasagna,“ frá 2004, voru glæpir einnig umfjöllunarefnið. Þá hefur Katrín einnig skrifað fjölda greina um íslenskar glæpasögur og gefur sér ævinlega tíma í önnum stjórnmálanna til að lesa slíkar sögur.

Vinsældir glæpasagna grundvallast að mati Katrínar ekki síst á því að „við erum sólgin í endurtekninguna. Það eru til rannsóknir sem sýna að fólk sest niður með glæpasögu með ákveðnar væntingar og ef ekki er staðið undir þeim, til dæmis ekki upplýst um gerandann, þá veldur það pirringi. Þá verður líka að vera til staðar ákveðin ógn um líf og limi [...] morð, að minnsta kosti yfirvofandi morð. Glæpasögur snúast með öðrum orðum um það sem er mikilvægast, nefnilega lífið sjálft. Það verður framinn hræðilegur glæpur og það mun finnast á honum lausn.“

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: pexels

Formúlan er aðaleinkenni glæpasögunnar

Pétur Már Ólafsson vildi draga úr því að formúlan væri aðaleinkenni glæpasögunnar. „Allar gerðir bókmennta fylgja formúlu og formúlurnar eru ótal margar. Ef skrifa ætti yfirlit yfir íslenskar glæpasögur síðustu tíu ára væri það væntanlega fjölbreytileikinn sem kæmi mest á óvart. Hver höfundur er sín eigin formúla.

Lilja Sigurðardóttir tók undir þetta og benti á að við öll skrif hvort heldur ljóða, leikrita eða sagna fylgdi höfundur ákveðnum reglum í samræmi við markmið sitt. „Þetta er alltaf glíma við form og það er það sem er gaman. Varðandi glæpasöguna er hins vegar oft talað um formið eða formúluna með niðrandi hætti, eins og það sé svo auðvelt, sem það er alls ekki,“ sagði Lilja.

„Fólk er forvitið um glæpi þótt langflestir myndu aldrei fremja neitt ólöglegt. Fólk vill gjarna fá innsýn í forsendur glæpa en líka úrlausn og réttlæti sem er liður í lestrarnautninni sem lesendur sækjast eftir,“ segir hún.

Glæpasögur gegna mikilvægu hlutverki

Því er stundum haldið fram að glæpasagan hafi bjargað raunsæishefðinni og tóku viðmælendur undir það. Þá gegndu glæpasögur mikilvægu hlutverki í samfélagsumræðunni eins og Katrín benti á: „Oft er fjallað um samfélagsmein í glæpasögum, kynbundið ofbeldi, fordóma, þróun borgarsamfélags og svo framvegis. Formið er með öðrum orðum nýtt til að fjalla um bága stöðu einstakra hópa.“

Lilja bætti við að glæpasögur endurspegluðu oft, eða afhjúpuðu, óæskilegar aðstæður í samfélaginu sem eru huldar eða reynt er að þagga niður.

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels

Sækjumst í glæpi til að æfa tilfinningasviðið

Glæpasögur eru afar fjölbreytilegar, ráðgátan með morð yfirleitt í upphafi, sálfræðitryllirinn þar sem morðið eða ógnin er yfirvofandi allan tímann, og svo er það spennusagan þar sem atburðarásin leiðir til glæps. Þá má ekki gleyma huggukrimmunum eða „cosy crime“ og sögulegum glæpasögum, þar sem jafnvel glæpir sem raunverulega hafa verið framdir eru upplýstir.

„Við erum svo dekruð í okkar vestræna samfélagi,“ áminnti Lilja, „hér er svo lítið af glæpum og hryllingi í kringum okkur að við sækjumst eftir honum. Að segja má til að æfa tilfinningasviðið. Í Mexíkó til dæmis sækist fólk ekki eftir glæpasögum heldur vill lesa ástarsögur.“

Katrín minnti einnig á hasarbókmenntir með menningarlegu ívafi í anda Dan Brown eða bók eins og Nafn rósarinnar eftir Umberto Eco sem sannarlega má lesa sem glæpasögur.

Mikilvægt að leyfa fólki að tengja við persónurnar

Í samræðunum um glæpasögur var einnig komið inn á persónusköpun og mikilvægi þess að gefa lesandanum möguleika á að tengja sig við persónurnar í breyskleika sínum eða snilligáfu.

„Fólk kaupir næstu bók í seríu út af persónunum sem ganga aftur bók eftir bók. Það eru ekki glæpirnir sem sóst er eftir,“ skaut Lilja inn í þá umræðu, og útgefandinn tók undir og sagði mun auðveldara að selja seríur en stakar sögur þar sem lesandinn getur fylgt eftir einhvers konar yfirsögu um persónurnar sem fást við að upplýsa glæpina.

Allir þátttakendur í þessari umræðu voru sannfærðir um að glæpasagan héldi sínum vinsældavelli þrátt fyrir auknar vinsældir glæpasagna á kvikmyndaformi í streymisveitum enda væru bestu seríurnar í streymisveitum byggðar á bókum.

 

Tengdar fréttir

Erlent

Af hverju elskum við sannar glæpasögur?

Bókmenntir

Yrsa meðal bestu glæpasagnahöfunda heims að mati Times

Bókmenntir

Ný og spennandi rödd í glæpasagnaflórunni

Innlent

Lofaði Theresu May íslenskri glæpasögu