Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd fylla sóttvarnarhúsið

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / Grímur Jón Sigurðsson
Sóttvarnarhúsið í Reykjavík er nánast orðið yfirfullt vegna hælisleitenda sem komið hafa hingað til lands undanfarnar vikur. Til stendur að opna annað sóttvarnarhús til viðbótar á næstu dögum.

Hátt í 50 umsækjendur um alþjóðlega vernd

Um fimmtíu manns dvelja nú í sóttvarnarhúsinu við Rauðarárstíg. Tveir eru sýktir af kórónuveirunni og eru í einangrun. Allir aðrir eru umsækjendur um alþjóðlega vernd. Gylfi Þór Þorsteinsson er umsjónarmaður sóttvarnarhúsa.

„Við vorum undirbúin en það kom okkur samt sem áður svolítið á óvart hversu fljótt fólk var að koma til okkar. Það eru fleiri búnir að vera hjá okkur núna en allt tímabilið siðast, alla þá þrjá mánuði, ætli þetta séu ekki hátt í hundrað manns sem hafa verið að koma til okkar inn og út. Það er mikið meira en það var síðast.“

Gylfi segir að gert hafi verið ráð fyrir að umsækjendur um alþjóðlega vernd kæmu hingað til lands eftir að landamæri voru opnuð en að ekki hafi verið búist við svo mörgum fyrst um sinn.

„Þetta fólk er að koma hvaðanæva að úr heiminum. Frá löndum sem eru annað hvort í stríði eða búa við mikla fátækt. Þetta fólk hefur upplifað mikla erfiðleika og er bara að leita að skjóli fyrir sig og sínar fjölskyldur.“

Opna nýtt sóttvarnarhús í Reykjavík

Fólkið fer í skimun við komuna til landsins. Það dvelur svo í sóttvarnarhúsinu í um fimm daga og er svo skimað öðru sinni. Reynist það ekki sýkt er það flutt í úrræði á vegum Útlendingastofnunar.

Fimmtíu herbergi eru í sóttvarnarhúsinu sem var við það að fyllast í gær. „Við náðum sem betur fer að fá niðurstöður úr seinni skimun hjá fimmtán einstaklingum sem gátu þá farið í gær þannig að það hjálpaði mikið því það hefur verið að koma fólk í dag líka. Við vorum við ákveðin þolmörk í gær en sem betur fer losnaði aðeins um,“ segir Gylfi.

Sóttvarnarhúsin á Egilsstöðum og Akureyri eru auð en til stendur að opna nýtt sóttvarnarhús í Reykjavík til að mæta fjölguninni.

„Vonandi getum við bara klárað það á næstu dögum en við erum að sjálfsögðu ávallt viðbúin og erum alltaf að hugsa fram í tímann þannig að við erum með nokkur úrræði í huga.“