Tjaldsvæði fyllast fljótt vegna fjöldatakmarkana

11.07.2020 - 17:14
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Ekki fá allir inni á tjaldsvæðum landsins í sumar vegna fimm hundruð manna hámarksfjölda á samkomum samkvæmt reglum sem eru í gildi og verða að öllum líkindum áfram út sumarið ef heilbrigðisráðherra fer eftir tillögum Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis. Forsvarsmenn stærstu tjaldsvæðanna mæla með að ferðalangar hringi á undan sér.

Í gær var greint frá að fólki hefði verið vísað frá tjaldsvæðinu í Skaftafelli vegna of mikillar aðsóknar miðað við þær takmarkanir sem eru í gildi. Svipað er uppi á teningunum í Básum í Þórsmörk og í Ásbyrgi var brugðið á það ráð fyrr í sumar að opna aftur flöt í botni Ásbyrgis sem hætt hafði verið að nota sem tjaldsvæði.

Panta þarf fyrir fram á tjaldstæðinu í Básum

Að minnsta kosti þrjú hundruð manns gista í nótt á tjaldsvæðinu í Básum í Þórsmörk og enn var verið að taka við pöntunum þegar fréttastofa hafði samband.

„Síðustu helgi þurftum við að vísa fólki frá og ég gæti alveg búist við því líka næstu helgi vegna Laugavegshlaupsins,“ segir Þóra Björk Ragnarsdóttir, skálavörður í Básum. Hún vekur athygli á að vegna fjöldatakmarkana þurfi að panta á tjaldstæðinu og talið sé inn á svæðið. Snyrtiaðstaða tjaldsvæðisins og skálans er aðskilin svo að ekki er hólfaskipt sérstaklega. Búið er að setja upp varmadælu svo það er rafmagn í skálanum allan ársins hring. Engar innstungur eru þó á tjaldstæðinu enn sem komið er.

Anna ekki eftirspurn eftir rafmagni í Ásbyrgi

„Sem betur fer höfum við ekki þurft að vísa neinum frá,“ segir Friðbjörn Bragi Hlynsson, landvörður í Jökulsárgljúfrum. Friðbjörn hvetur ferðalanga til að hringja á undan sér og athuga stöðuna hjá landverði á tjaldsvæðinu í Ásbyrgi, sérstaklega um helgar og þegar spáin er góð. 

„Við lendum í því að við erum ekki með nógu mikið rafmagn.“ Íslendingar séu margir hverjir með hjólhýsi og fellihýsi og þurfi mun oftar að tengja í rafmagn en erlendir ferðamenn. „Verði hörkuspá í júlí sé ég allan daginn fyrir mér að við gætum þurft að vísa fólki frá,“ segir Friðbjörn.

Finnur Sigfús Illugason, eigandi ferðaþjónustunnar Bjargs á Mývatni, segir nýtingu á tjaldstæði sínu milli 20 og 25 prósent af því sem var í fyrra. Hann segir að ef spáin sé ekki góð komi Íslendingar einfaldlega ekki. Hann segir helst bera á íslenskum ferðamönnum í lok júlí og fram í byrjun ágúst, en þeir séu mjög lítið á ferðinni eftir það. Nú séu erlendir gestir á tjaldsvæðinu í meirihluta ólíkt því sem var í byrjun sumars.

Fylltist einnig í Varmahlíð

„Það var mjög mikið að gera síðustu helgar en það er rólegra á virkum dögum,“ segir Hildur Þóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Tjöldum í Skagafirði sem rekur tjaldstæði á Hofsósi, Hólum í Hjaltadal, í Varmahlíð og á Sauðárkróki. 

„Við sjáum 20% samdrátt í tekjum milli ára þannig að það er betra en við bjuggumst við.“ Þóra segir að síðustu tvær helgar hafi þurft að vísa gestum frá í Varmahlíð - ekki vegna fjöldatakmarkana heldur vegna þess að tjaldstæðið hafi ekki rúmað fleiri.  Þóra segir að á Hólum í Hjaltadal sé stórt tjaldsvæði á frábærum stað en þar sé ekki rafmagn. „Þannig að Íslendingarnir eru ekki alveg nógu duglegir að heimsækja Hóla.“

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi