Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Telja tímabært að hætta landamæraskimun

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Samtök ferðaþjónustunnar telja tímabært að hætta landamæraskimun til að hægt sé að hleypa fleiri ferðamönnum inn í landið. Skapti Örn Ólafsson upplýsingafulltrúi samtakanna segir fyrirsjáanlegt að fella þurfi niður margar flugferðir á næstu vikum þar sem ekki er hægt að skima fleiri en tvö þúsund farþega á dag.

Þetta kom fram í máli Skapta í Vikulokunum á Rás eitt í morgun. 

„Við veltum því fyrir okkur hjá Samtökum ferðaþjónustunnar hvort ekki sé komið að þeim tímapunkti að aflétta þessum skimunum. Hreinlega fjölga þeim löndum sem eru á þessum græna lista. Við erum stundum kaþólskari en páfinn hérna á Íslandi þegar kemur að ýmsum málum. Við höfum ekki gefið neinn afslátt þegar kemur að skimunum og sóttvörnum í þessu fári og við erum að fara inn í fimmta mánuðinn í þessum covid málum,“ sagði Skapti.

Hlusta má á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér til hliðar. Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum og Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri í Hveragerði voru gestir í Vikulokunum ásamt Skapta Erni.