Sló afgreiðslumann í andlitið

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Líkamsárás var tilkynnt til lögreglu korter fyrir átta í gærkvöldi. Maður sló afgreiðslumann í verslun í 101 í andlitið og skemmdi borð í búðinni. Maðurinn var farinn af vettvangi þegar lögregla kom en málið er í rannsókn.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Handteknir fyrir sölu og vörslu fíkniefna

Á miðnætti stöðvaði lögregla bíl á Suðurlandsvegi við Rauðavatn.  Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.  Ökumaðurinn og tveir farþegar í bifreiðinni voru handteknir og vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.  Mennirnir eru grunaðir um sölu og dreifingu fíkniefna.  

Að minnsta kosti tveir voru vistaðir í fangageymslu lögreglu í miðborginni vegna ofurölvunar og tveir voru teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Annar ökumaðurinn er grunaður um að keyra bíl undir áhrifum fíkniefna, að keyra sviptur ökuréttindum,  vörslu fíkniefna og brot á lyfjalögum. Hinn um að keyra bíl undir áhrifum fíkniefna og vörslu og sölu fíkniefna. 

Þá var bíll stöðvaður í  Hafnarfirði um hálf tvö í nótt.  Ökumaðurinn og farþegi voru handteknir og vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.  Mennirnir eru grunaðir um ýmis brot tengd vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi