Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Óttaðist um líf sitt hvern dag í Bosníu-stríðinu

11.07.2020 - 20:27
Fórnarlamba þjóðarmorðanna í Srebrenica í Bosníu var minnst í dag, þegar 25 ár eru liðin frá voðaverkunum. Jasmina Crnac sem bjó í Bosníu sem barn segir að ástandið í landinu á tímum stríðsins hafi verið hreint helvíti.

Hersveitir Bosníu-Serba réðust inn í bæinn Srebrenica þennan dag, 11. júlí árið 1995 og drápu yfir átta þúsund bosníska múslima, mest karla. Morðin stóðu yfir í tíu daga. Enn er verið að bera kennsl á lík og voru níu jarðsett í dag.

Sjá einnig: 25 ár liðin frá þjóðarmorði í Srebrenica

Jasmina Crnac er Bosníu-múslimi og ólst upp í borg þar sem Bosníu-Serbar voru í meirihluta. Hún flutti með fjölskyldu sinni til Íslands þegar stríðinu í Júgóslavíu lauk. Í dag er hugur hennar er hjá ástvinum þeirra sem voru teknir af lífi fyrir 25 árum. „Eftir 25 ár þá finna þau enn til. Þeim finnst þetta enn þá óréttlæti, að réttlæti sé ekki náð. Það eru mörg fórnarlömb sem hafa ekki fengið réttlæti, það er að segja, þeir sem gerðu þessi voðaverk hafa ekki öll náðst og farið fyrir dómstóla til að taka út sína refsingu,“ segir hún. 

Áreitt vegna þjóðernis

Þrátt fyrir að hafa upplifað hörmungar stríðsins segir Jasmina að fjölskyldan hafi verið heppin að sleppa við voðaverk eins og þau í Srebrenica. „Ég var af því þjóðerni sem var ekki samþykkt og fyrir það eina var í lagi að áreita mig, það var allt í lagi að beita okkur andlegu ofbeldi, og jafnvel marga aðra miklu verra ofbeldi. Fólk var náttúrulega drepið, eins og við vitum. Fólk varð fyrir áföllum, fólk var myrt, konum var nauðgað, það voru pyntingarbúðir, fólk var í nauðungarvinnu.“

Faldi sig á nóttunni fyrir hermönnum

Stríðsátökin höfðu margvísleg áhrif á lífið og hversdagsleikinn var óvenjulegur frá því sem Jasmina og fjölskylda höfðu áður þekkt. „Það var kvöld eftir kvöld sem pabbi minn var aldrei heima. Hann var að vinna nauðungarvinnu yfir daginn. Á kvöldin þá svaf hann úti í móa af því að það voru lögreglumenn eða hermenn sem komu og sóttu fólk á kvöldin.“ Þau horfðu upp á nágranna sína sótta í skjóli nætur af hermönnum. Jasmina segir að þau hafi verið beitt andlegu ofbeldi sem þessu í tvö ár. Vegna upprunans var þeim svo að lokum vísað úr íbúðinni sinni og stóðu þá uppi heimilislaus. „Við reyndum að flýja til Ungverjalands en einhverra hluta vegna var rútunni okkar var ekki sleppt í gegn. Okkur var snúið aftur við á landamærunum þannig að við fórum aftur, eins og ég segi, í hreint helvíti, til baka, og þá gátum við bara verið flóttamenn innan landamæra Bosníu.“

Erfitt fyrir barn að upplifa stríðið

Þau fóru til baka frá landamærunum að Ungverjalandi með aðeins fjórar ferðatöskur og héldu til í flóttamannabúðum um tíma við slæmar aðstæður innan um fjölda manns liggjandi á dýnum, án rafmagns og vatns. Þau ákváðu að halda í annan stærri bæ, án þess að vita hvað tæki við þar.  

Saman á flótta voru foreldrar Jasminu, bróðir hennar og fjögurra manna vinafjölskylda. Ókunnug kona sem var úti á svölunum á íbúð sinni sá að þau ætluðu að gista á götunni og bauð þeim að vera hjá sér þar til þau fundu annan samanstað. „Fyrir krakka að upplifa þetta. Það er náttúrulega bara hræðilegt. Á sama tíma ertu alltaf að óttast um lífið þitt því að þetta er stríð. Það koma sprengur, hermenn, það var stríðsástand og maður fór ekkert í skólann dögum saman,“ segir Jasmina sem telur að börnin sem lentu í stríðinu hafi þurft að þroskast mikið hraðar en eðlilegt þykir í dag. „Það fór hver einasti dagur í ótta um öryggi, hvort við yrðum lifandi eða dáin. Hvort sem það var út af matarskorti eða sprengjum eða hermönnum sem myndu koma og ráðast á okkur.“

Treystu á hjálparstofnanir

Foreldrar Jasminu gátu ekki unnið meðan á flóttanum stóð og þurftu að treysta á hjálparstofnanir varðandi helstu nauðsynjar. Hún segir að öll þjóðin hafi verið í þessum sporum, ekki bara Bosníu-múslimar, heldur líka Serbar og Króatar. „Fólkið var allt í sömu sporum, að díla við það sama,“ segir hún.

Jasmina segist ekki hafa fyllilega gert sér grein fyrir hryllingnum sem átti sér stað í landinu fyrr en hún varð fullorðin. „Þetta var bara ótrúlegt. Það var eins og það hefði gerst eitthvað svona rof í samfélaginu, þar sem allir einhvern veginn, það koma ný gildi í samfélaginu. Þannig að þetta gamla var ekkert lengur til. Þetta var erfitt að skilja, fyrir 11 ára gamlan krakka, á sínum tíma og ég þurfti virkilega að hafa fyrir því á efri árum að skilja hvað hafði gerst og þurfti að vinna úr mínum málum. Þetta voru áföll sem ég fór í gegnum í fjögur ár það er alltaf mjög erfitt að tala um þetta, það er bara þannig.“

Lærði að flokka aldrei fólk

Jasmina kveðst hafa lært heilmargt af reynslu sinni í æsku. Fyrir það fyrsta að flokka aldrei fólk og segja aldrei „við“ og „þið“. „Ég lærði að það skiptir máli að vinna saman að betra samfélagi,“ segir hún. Stjórnmálamenn á sínum tíma hafi flokkað fólk og geri það raunar sumir í dag því það hagnist þeim. „Fólkið sem býr í landinu, lang flestir eru ekki þar, að segja að þessir eru hinir séu vondir. Það að setja heila þjóð undir sama hatt, það er eitthvað sem að ég tek ekki þátt í og er að berjast gegn af því að við erum fyrst og fremst mennsk, við erum fólk.“