Mynd Jóhanns Jóhannssonar Íslandsfrumsýnd á Skjaldborg

Mynd með færslu
 Mynd: Patrik Ontkovic - Skjaldborg

Mynd Jóhanns Jóhannssonar Íslandsfrumsýnd á Skjaldborg

11.07.2020 - 09:03

Höfundar

First and Last Men eftir Jóhann Jóhannsson verður Íslandsfrumsýnd á Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildarmynda um verslunarmannahelgina á Patreksfirði. Venjan er að halda Skjaldborg um hvítasunnu en hátíðinni var frestað í ár vegna COVID-19.

Í tilkynningu frá aðstandendum kemur fram að Skjaldborg sé uppskeruhátíð íslenskra heimildarmyndahöfunda og eina íslenska kvikmyndahátíðin sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildarmyndir. Þar komi reynsluboltar í faginu, byrjendur og hinn almenni áhorfandi saman í skapandi samtali. Auk frumsýninga eru á dagskrá vinnustofur, hliðardagskrá og skemmtanahald.

Aldrei fyrr hafa hátíðinni borist jafn margar umsóknir fullbúinna heimildarmynda sem og verka í vinnslu til þátttöku og segja hátíðarhaldarar það merki um mikla grósku á sviði heimildarmyndagerðar í landinu. Fjórtán myndir verða frumsýndar á hátíðinni auk þess sem sex verk í vinnslu verða kynnt. Þar á meðal er frumsýnd á Íslandi fyrsta og eina leikstjórnarverkefni Jóhanns Jóhannssonar First and Last Men. Þar samdi Jóhann tónlist við myndefni af minnisvörðum og styttum í gömlu Júgóslavíu og leikkonan Tilda Swinton les valda kafla úr vísindaskáldsögunni First and Last Men eftir Ólaf Stapleton. Jóhann byrjaði að vinna myndina árið 2010 og var langt kominn með hana þegar hann lést fyrir tveimur árum, en samstarfsfólk hans ákvað að klára verkið.

Heiðursgestur Skjaldborgar í ár er Hrafnhildur Gunnarsdóttir sem hefur unnið ötullega að heimildarmyndagerð á Íslandi á ferli sínum. Í vetur sýndi RÚV til dæmis eftir hana Svona fólk, heimildarþætti um málefni samkynhneigðs fólks á Íslandi, sem hún vann að í rúma þrjá áratugi. Mynd hennar Vasulka áhrifin vann Einarinn, áhorfendaverðlaun Skjaldborgar í fyrra.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Stefna á að sýna síðustu mynd Jóhanns á Íslandi í vor

Kvikmyndir

Gagnrýnendur lofa nýja kvikmynd Jóhanns Jóhannssonar

Menningarefni

Stórleikstjórar minnast samstarfsins við Jóhann

Tónlist

Jóhann vann að tónlist fyrir stóra Disney-mynd