Meistaradeildarsæti Chelsea í hættu

epa08540773  David McGoldrick of Sheffield (L) in action against Christian Pulisic of Chelsea (R) during the English Premier League match between Sheffield United and Chelsea in Sheffield, Britain, 11 July 2020.  EPA-EFE/Shaun Botterill/NMC/Pool EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos or 'live' services. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications.
 Mynd: EPA-EFE - GETTY POOL

Meistaradeildarsæti Chelsea í hættu

11.07.2020 - 18:25
Chelsea tapaði óvænt 3-0 fyrir Sheffield United á Bramall Lane, heimavelli þeirra síðarnefndu, í 35. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag. Eftir tapið á Chelsea á hættu að falla niður úr Meistaradeildarsæti að umferðinni lokinni.

Chelsea var umtalsvert meira með boltann í leiknum en gekk bölvanlega að brjóta Sheffield-stálið. Heimamenn beittu skyndisóknum og uppskáru mark á 18. mínútu leiksins þegar framherjinn David McGoldrick skoraði sitt fyrsta deildarmark á leiktíðinni eftir mikla eyðimerkurgöngu, 25 leiki án marks.

Félagi hans í framlínunni Ollie McBurnie tvöfaldaði þá forystuna stundarfjórðungi síðar og 2-0 stóð í leikhléi, heimamönnum í vil. Hvorki gekk né rak hjá Chelsea að minnka muninn í síðari hálfleiknum þrátt fyrir að vera hátt í 80% með boltann. Vont varð þá verra þegar McGoldrick tvöfaldaði markafjölda sinn á tímabilinu með öðru marki sínu í leiknum á 77. mínútu. Þar við sat og magnaður 3-0 sigur nýliða Sheffield staðreynd.

Sheffield fer með sigrinum upp fyrir Wolves í sjötta sæti með 54 stig og styrkir stöðu sína í baráttu um sæti í Evrópudeildinni að ári. Ljóst er að fimmta og sjötta sæti veita sæti í keppninni og sjöunda sætið gæti bæst við en það veltur á því hvaða lið vinnur ensku bikarkeppnina.

Chelsea er aftur á móti í þriðja sæti með 60 stig eftir 35 leiki. Leicester City er aðeins stigi á eftir Lundúnaliðinu í fjórða sætinu og Manchester United er með tveimur stigum minna í því fimmta.

Bæði Leicester og United eiga leik inni á Chelsea og geta því sent þá bláklæddu úr Meistaradeildarsæti, niður í það fimmta í deildinni. Leicester sækir Bournemouth heim annað kvöld og Manchester United tekur á móti Southampton á mánudagskvöld.