Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Lokað á alla utanaðkomandi mannúðaraðstoð til Sýrlands

epa08538888 International humanitarian aid trucks cross into Syria at Bab al-Hawa Turkey- Syria border crossing, Syria, 09 July 2020.Accoriding to local media sources and various NGOs operating in northwestern Syria, the UN humanitarian agencies mandated by the UN Security Council Resolution 2504, which aimed to allow transborder aid delivery into northwestern Syria, is due to expire on 10 July. If it is not renewed in its current form or another, the about 3 million people in the area who depend on it will be deeply affected. The resolution allowed UN agencies to deliver the aid to the rebel held areas without permission form the Syrian government through two specific border crossings.  EPA-EFE/STR
Tugir flutningabíla á vegum hjálparsamtaka sem viðurkennd eru af Sameinuðu þjóðunum bíða við landamærastöðina Bab al-Hawa í Tyrklandi, eftir því að fá að fara til Sýrlands með hjálpargögn. Nú eru þeim allar leiðir til Sýrlands lokaðar. Mynd: EPA-EFE - EPA
Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna tókst ekki að ná sátt um tilhögun utanaðkomandi mannúðaraðstoðar til milljóna stríðshrjáðra Sýrlendinga í gærkvöld og því eru alþjóðlegum hjálparsamtökum nú allar leiðir lokaðar inn í Sýrland, þar sem milljónir almennra borgara líða alvarlegan skort á öllum helstu nauðsynjum.

Rússar og Kínverjar beittu neitunarvaldi gegn tillögu Þjóðverja og Belga um að framlengja samkomulag sem rann út á miðnætti í nótt og heimilaði innflutning hjálpargagna um tvær landamærastöðvar á mörkum Sýrlands og Tyrklands. Fulltrúar allra hinna þrettán þjóðanna í ráðinu samþykktu tillöguna, en það dugði skammt gegn neitun stórveldanna tveggja.

Endurtekið efni í pólitískum hráskinnsleik

Gagntillaga Rússa um að takmarka slíkan innflutning við eina landamærastöð var síðan felld með sjö atkvæðum gegn fjórum, en fjögur ríki sátu hjá. Er þetta endurtekning á því sem gerðist fyrr í vikunni; eini munurinn er sá að nú voru báðar tillögur lagðar fram og felldar samdægurs, en fyrr í vikunni var tillaga Þjóðverja og Belga afgreidd á þriðjudegi en tillaga Rússa daginn eftir.

Allar leiðir lokaðar

Samkomulagið sem rann út á miðnætti hafði gilt í fimm ár og vilji meirihluta Öryggisráðsins stóð til þess að framlengja það um jafn langan tíma. Rússar buðu hins vegar upp á eina landamærastöð í eitt ár. Þar sem hvorug tillagan var samþykkt er nú ómögulegt að flytja hjálpargögn til Sýrlands með öruggum hætti.

Fram að síðustu áramótum mátti flytja nauðþurftir til Sýrlands í gegnum fjórar landamærastöðvar; stöðvarnar tvær sem tekist var á um í Öryggisráðinu í kvöld, eina við landamærin að Írak og aðra við jórdönsku landamærin. Samningur um hinar síðarnefndu rann út um áramót og vegna andstöðu Rússa var fallið frá því að reyna að fá hann framlengdan.

Ríkin sjö sem greiddu atkvæði gegn tillögu Rússa; Bandaríkin, Þýskaland, Belgía, Eistland, Dóminíska Lýðveldið, Bretland og Frakkland, segja hins vegar ekki koma til greina að fækka flutningaleiðum hjálpargagna enn frekar.  Suður-Afríka og Víetnam, sem ásamt Kínverjum greiddu tillögu Rússa líka atkvæði sitt, mátu það svo að betra væri að halda einni leið opinn en engri en Túnis, Níger, Indónesía og Sankti Vinsent og Gren­adín­ur sátu hjá.

Í berhögg við skynsemi og mannúð

Hjálparsamtökin OXFAM vöruðu við því í ákalli til Öryggisráðsins, að bann við utanaðkomandi neyðaraðstoð yrði „reiðarslag fyrir þær milljónir sýrlenskra fjölskyldna, sem reiða sig á slíka aðstoð til að fá vatn, mat, heilbrigðisþjónustu og skjól fyrir veðri og vindum.“

David Miliband, formaður hjálparsamtakanna International Rescue Committee, segir það „ganga í berhögg við hvort tveggja skynsemi og mannúð að rífa niður kerfi sem hannað er til að færa Sýrlendingum lífsnauðsynlega aðstoð í formi matar, sjúkragagna, bóluefnis og nú bráðnauðsynlegra bjarga vegna Covid-19.“

Í upprunalegri útgáfu þessarar fréttar var David Miliband sagður formaður Alþjóða Rauða krossins (ICRC). Hið rétta er að hann er formaður International Rescue Committee (IRC).