Íslandsmeistararnir heimsækja bikarmeistarana

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Íslandsmeistararnir heimsækja bikarmeistarana

11.07.2020 - 18:10
16-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna kláruðust í dag er Þór/KA og ÍA urðu síðustu liðin til að tryggja sæti sitt í 8-liða úrslitum. Dregið var í 8-liða úrslitin eftir að leikjum þeirra lauk og er þar stórslagur á dagskrá.

Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir skoraði eina mark leiksins er úrvalsdeildarlið Þórs/KA vann 1-0 heimasigur á 1. deildarliði Keflavíkur norðan heiða. Mark í uppbótartíma tryggði þá ÍA 2-1 sigur á Augnabliki í 1. deildarslag á Akranesi.

Dregið var í 8-liða úrslit að leikjum dagsins loknum þar sem stórleikur er á dagskrá. Bikarmeistarar Selfoss, sem unnu 3-0 sigur á Stjörnunni í gær, mæta Íslandsmeisturum Vals á sínum heimavelli.

FH og KR mætast á þá einnig í úrvalsdeildarslag, 1. deildarlið Hauka fer til Akureyrar að mæta Þór/KA og Breiðablik heimsækir ÍA á Akranes.

8-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna

Þór/KA – Haukar
FH – KR
ÍA – Breiðablik
Selfoss – Valur