Hið fallega ferli

Mynd tekin eftir upptökur í STÚDÍÓ 12
 Mynd: Ragnar Santos - RÚV

Hið fallega ferli

11.07.2020 - 10:05

Höfundar

Tíunda plata Heru Hjartadóttur kallast einfaldlega Hera. Barði Jóhannsson, kenndur við Bang Gang, sá um upptökustjórn. Hera er plata vikunnar á Rás 2.

Hera Hjartadóttir vakti talsverða athygli hérlendis í upphafi fyrsta áratugarins og fram í hann miðjan. Plötur hennar, Not Your Type og Don‘t Play This, sýndu að hér var hæfileikamanneskja á ferð, þar sem spilamennska, söngrödd og sjarmerandi fas studdi hvert við annað.

Aftur heim

Hera hefur að mestu leyti búið á Nýja-Sjálandi en er nú flutt aftur heim til Íslands. Plata þessi hefur verið í vinnslu í rúm þrjú ár og er fyrsta sólóplata Heru í rúm átta ár og er það Barði Jóhannsson sem upptökustýrir.

Eins og kemur fram hér, Hera hefur verið afar iðin við kolann allt sitt líf, fjöldi platna og tónleikar út um allan heim að baki. Síðasta hljóðversplata, Rattle my Bones (2011), innihélt nokkuð gáskafull lög, þjóðlagaskotin og knýjandi. Ef hún er morgunplatan er þetta platan sem tilheyrir deginum er hann fer að halla. Þetta er „fullorðins“. Hægstreymt verk og hugulsamt, pælt og giska voldugt. Lögin eru dempuð og taka sér þann tíma sem þau þurfa. Og líða um í þykkum, umlykjandi hljóm. Sjá (og heyra) t.d. „Process“. Það er nettur Alanis-blær í því (hrós) og Hera syngur varlega og lágvært. Söngrödd hennar hefur ávallt verið sterk og skýr og það hjálpar upp á textaframsetningu en auðheyranlega er verið að vinna úr einu og öðru.

Barði gerir mjög vel í upptökustjórninni. Þekkjandi hans feril átti ég jafnvel von á að platan yrði myrkari, gotneskari og er tilefnið sosum ærið. En svo er ekki. Barði leyfir poppinu að gljáa, þjónar listamanninum fyrst og síðast. Hljómur er virkilega góður út í gegn, eins og ég sagði hér í upphafi.

„Coldest Evening“ rúllar áfram á taktfastan hátt og svalan, líkt og Charlotte Gainsbourg mæli í fón míkra. Í „How Does a Lie Taste“ er ekki hægt að fela reiðina og vonbrigðin og framvinda smíðarinnar styður vel við þessar tilfinningar. „Cool it“ er kántrílag. Einslags. „Simple“ ber nafn með rentu, þekkileg ballaða. Það segir í raun allt um upplegg plötunnar að lag með titlinum „Let‘s have a Party“ er uppfullt af melankólíu.

Burðugt

Hin burðugasta plata og frábær „endurkoma“ ef svo má segja. Söngur Heru er ástríðufullur út í gegn, lögin haganlega samin og frágengin og rennslið afar sannfærandi og heilsteypt. Stórgott!

Tengdar fréttir

Tónlist

Fjallar um að finna tenginguna við náttúruna og núið

Tónlist

Tilnefndar til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs

Klassísk tónlist

18 milljónum úthlutað úr Tónlistarsjóði 

Tónlist

Hera snýr aftur til Íslands – án andlitsmálningarinnar