
Hátt í 200 aldraðir bíða á ýmsum deildum Landspítala
„Undirliggjandi vandinn er sá að það fjölgar mjög hratt okkar eldri borgurum sem er fagnaðarefni. En þá þarf að huga að því að þeir, sem að eiga ekki afturkvæmt heim til sín eftir veikindi, fái þá hjúkrunarrými eða öflugan stuðning heima við,“ segir Páll.
„Við lentum nú í júní aftur í því að það fer aftur að safnast upp fólk sem er að bíða úrræða utan spítalans og við viljum ekki að það sem gerðist í vetur gerist aftur; að ástandið verði hættulegt á bráðamótöku spítalans. Þannig að við gripum þá til þess bráðabirgða - og bráðaúrræðis að opna biðdeild á spitalanum í húsnæði sem er ekki verið að nota yfir hásumarið,“ segir Páll.
Fleiri leiðir skoðaðar
Hann segir að það úrræði dugi skammt. Verið sé að skoða fleiri leiðir, meðal annars samstarf við fleiri heilbrigðistofnanir og bæði heilbrigðisráðuneytið og heimahjúkrun höfuðborgarsvæðisins vinni að lausnum. Vandinn sé brýnn.
„Samtals núna erum við með 93 með færni og heilsumat. Í viðbót við þennan hóp erum við með eldri borgara sem eru að bíða endurhæfingar. Það má segja að sá hópur bætist við , það eru einhverjr tugir. Þetta er töluverður hópur og það er alveg ljóst að við verðum að halda áfram að setja mjög mikinn kraft i að finna lausnir fyrir hruma eldri einstaklinga sem eiga ekki afturkvæmt heim og þurfa viðunandi heimili,“ segir Páll.
Hann segir að áhrifanna gæti víða á spítalanum. „Ég held að þetta hafi almennt áhrif mjög víða þegar allt upp í fimmtungur til fjórðungur legurýma, þegar verst lætur, eru upptekin.“