Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Glórulaus“ veiking á brunavarnasviði

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Brunavarnasvið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) verður flutt norður á Sauðárkrók í haust. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, tilkynnti um flutningana í lok maí á fundi þar sem hann boðaði aðgerðir til að efla brunavarnir í landinu. Innan sviðsins starfa nú fjórir sérfræðingar og ljóst er að enginn þeirra hefur hug á að flytja norður í land.

„Þetta er glórulaus ákvörðun,“ segir Magnús Smári Smárason, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, í samtali við fréttastofu. „Það hefur enginn sýnt fram á nein rök önnur en pólitísk“. Sauðárkrókur tilheyrir Norðvesturkjördæmi, sem er kjördæmi Ásmundar Einars. Vísir fjallaði um flutningana í júní.

Segir hæfu fólki fórnað fyrir pólitík 

Það er alvarlegt að til standi að „fórna mjög hæfu fólki fyrir landsbyggðarpólitík,“ segir Magnús. Hann telur það skjóta skökku við að ákvörðunin hafi verði kynnt sem liður í því að styrkja starfið því enginn vafi sé á því að flutningarnir munu veikja starfsemina. Ekki aðeins sem afleiðing af því að endurmanna þurfi öll störf brunasviðsins, heldur megi einnig leiða líkum að því að flutningarnir hafi áhrif á samstarf brunavarnasviðs HMS við aðrar stofnanir sem staðsettar eru á höfuðborgarsvæðinu.  

Magnús segir tímasetningu flutninganna afleita, ekki síst í ljósi þess að tiltölulega nýlega var málaflokkurinn færður milli ráðuneyta og svo hafi talsvert umrót fylgt sameiningu Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar um síðustu áramót. Landssambandið varaði einmitt við því við sameiningu stofnananna að við tilfærslu málaflokksins yfir í félagsmálaráðuneytið hefði þekking og fjármagn ekki fylgt með og slíkt mætti ekki endurtaka sig.  

Hringl með stofnunina hafi veikt starfsemina

Þá segir hann starfsemi brunavarnasviðsins nú loks vera að komast í betra horf eftir sameininguna og að nýlega hafi farið fram mikil endurskipulagning á starfsemi brunamálaskólans sem heyrir undir brunavarnasviðið. Starfseminni hefði lengi verið ábótavant. Hann segist óttast að við flutningana verði öll sú vinna fyrir bí.

„Það sem við erum mest að horfa til er að til að hafa skilvirkar brunavarnir þá þarf þjálfaðan mannskap. Það þarf skipulagða og skilvirka þjálfun og endurmenntun. Allt þetta hringl með stofnunina hefur veikt þessa vinnu og flutningarnir koma til með að veikja þetta enn frekar,“ segir Magnús. 

Ábendingar um mikilvægi þess að hlúa vel að brunavarnasviðinu og brunamálaskólanum 

Við umfjöllun um frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar um sameiningu Mannvirkjastofnunar og Íbúðalánasjóðs í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun var umsagnaraðilum mikið í mun að brunavarnasvið stofnunarinnar færi ekki varhluta af sameiningunni.  

Í nefndaráliti minni hluta velferðarnefndar Alþingis segir: „Að mati minni hlutans var við samningu frumvarpsins horft of mikið á húsnæðishluta hinnar nýju stofnunar og ber greinargerðin þess merki að sú áhersla hafi verið á kostnað starfs Mannvirkjastofnunar, sem felst m.a. í eftirliti með brunavörnum og rafmagnseftirliti. Meðal annars komu fram áhyggjur af hlutverki brunamálaskólans, þar sem skorti framtíðarsýn, prófin væru úrelt og nám við skólann ekki metið inn í viðurkennt kerfi. Þá væru þeir fjármunir sem greiddir væru í bygginga- og öryggisgjald ekki að skila sér í starfsemi stofnunarinnar. Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Verkfræðingafélag Íslands og Samorka bentu öll á að hætta yrði á að mikilvægi öryggisþáttarins yrði ekki gert nægilega hátt undir höfði“. 

Í umsögn Félags slökkviliðsstjóra á Íslandi segir til dæmis: „Stjórn FSÍ telur afar mikilvægt að málefni er lúta að brunavörnum, hvort heldur sem er á forvarnar eða útkallssviði verði haldið á lofti innan nýrrar stofnunar með tilliti til hversu mikilvæg þau eru íbúum landsins. Þar má hvergi slá slöku við.“ 

Þá hefur nokkur umræða átt sér stað um brunavarnir eftir hörmungarnar á Bræðraborgarstíg í lok júní.

Flutningarnir komu starfsfólki í opna skjöldu 

Eins og fyrr segir tilkynnti Ásmundur Einar um flutningana í tengslum við fyrirhugaðar „aðgerðir hans til þess að efla umgjörð brunamála og brunavarnir á Íslandi“. Aðgerðirnar voru kynntar sem viðbrögð við ábendingum í skýrslu um málaflokkinn sem unnin var af starfshópi skipuðum af stjórn HMS.

Samkvæmt heimildum fréttastofu komu flutningarnir til Sauðárkróks ekki til tals innan HMS fyrr en rétt áður en Ásmundur tilkynnti um þá á kynningarfundi sem fram fór í starfstöð HMS á Sauðárkróki þann 28. maí. Í kjölfar skýrslunnar hafði verið ráðist í uppbyggingarvinnu innan brunasviðsins og samráð haft við ýmsa fagaðila en í tengslum við þá vinnu hafði aldrei verið minnst á að til stæði að flytja sviðið norður í land. 

Óljóst hvernig mönnun verður háttað

Heimildir fréttastofu herma að starfsfólk hafi fagnað mörgum þeim aðgerðum sem ráðast átti í, til dæmis að tryggja að eyrnamerkt fjármagn rynni raunverulega í málaflokkinn. Flutningarnir hafi hins vegar komið þeim í opna skjöldu. Nú þurfi að nota fjarfundabúnað til að hafa samstarf við þá ótal samstarfsaðila sem hafa aðsetur á höfuðborgarsvæðinu og enn óljóst hvernig mönnun verður háttað fyrir norðan. 

Brunavarnasvið HMS sinnir ekki beinu eldvarnareftirliti, heldur hefur það eftirlit með eftirlitsaðilum innan slökkviliða sveitarfélaganna. Hins vegar fer brunavarnasviðið á vettvang eftir bruna þegar um er að ræða stórbruna eða mannskæða bruna og sinnir rannsóknum.  

Fréttastofa náði ekki tali af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, við vinnslu þessarar fréttar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.