Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gera íslenskar raddir ódauðlegar með raddgervli

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin

Gera íslenskar raddir ódauðlegar með raddgervli

11.07.2020 - 13:26

Höfundar

Mál- og raddtæknistofa HR vinnur hörðum höndum að því að þróa forrit sem skilur og talar íslensku. Dósent við skólann segir að hlúa verði að tungumálinu og því sé mikilvægt að tæknin sé aðgengileg á íslensku.

„Það er verið að reyna að búa til tæki og tækni sem leyfir okkur að leika okkur með tungumálið og halda áfram að þróa það á sem eðlilegastan hátt,“ segir Jón Guðnason, dósent við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík í viðtali við Tengivagninn á Rás 1. Starfsmenn mál- og raddtæknistofu Háskólans vinna að þróun og hönnun raddgervils og talgreinis þessi misserin. Meðal markmiða verkefnisins er að þróa forrit sem skilja og tala íslensku.

Jón Guðnason segir verkefnið þó vera stærra en það. „Það er svo margt sem hægt er að gera við þessa tækni. Um leið og þú getur byrjað að hafa samskipti við tölvu með talmálinu þá breytist svo margt. Það er ekki bara þessi samræða sem við getum átt við tæknina heldur líka alls konar gagnasöfnun og sýndarveruleiki og annað sem við getum búið til.“

Hann segir mikilvægt að tæknin sé aðgengileg á íslensku, enda sé það hlutverk okkar að hlúa að málinu. Þó sé ekki bein málverndarstefna við lýði. Tekið sé tillit til þess að tungumálið breytist og þroskist. Ekki sé verið að „setja tungumálið í einhverja flösku og setja upp á hillu.“ Því sé öfugt farið. „Það er verið að reyna að búa til tæki og tækni sem leyfir okkur að leika okkur með tungumálið og halda áfram að þróa það á sem eðlilegastan hátt,“ segir Jón.

Raddirnar sem tala fyrir raddgervlana tilheyra átta manns og hver og einn hefur lagt á sig mikla vinnu og afraksturinn er um tuttugu klukkutímar af töluðu efni. Ragnheiður Þórhallsdóttir, verkefnastjóri hjá mál- og raddtæknistofunni, segir mikilvægt að raddirnar séu ólíkar. Öll eigi þó lesararnir, eigendur hinna ódauðlegu íslensku radda, það sameiginlegt að vera með fallegar raddir.

Tengivagninn fór í heimsókn í mál- og raddtæknistofu Háskólans í Reykjavík. Innslagið í heild og raddsýni frá talgervli í þjálfun má heyra í spilaranum.

Tengdar fréttir

Íslenskt mál

Keppast um að bjarga íslenskunni frá glötun

Austurland

Snjallforrit lesa upp af bókum fyrir lesblinda

Innlent

Safna íslenskum röddum

Íslenskt mál

„Íslensk tunga er ævintýri“