Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Franskir femínistar kalla á afsögn innanríkisráðherra

epa08539279  Hundreds of feminist activists protest against the nomination of the new Interior Minister Gerald Darmanin who has been accused of sexual assault in a case dating back nearly ten years, and new justice minister Eric Dupond-Moretti who has criticized the 'MeToo' movement, by the Hotel de Ville, the Paris Mayor House, in France, 10 July 2020.  EPA-EFE/YOAN VALAT
„Hvernig kemur maður sér hjá ákæru fyrir nauðgun? Með því að verða yfirmaður lögreglunnar" er ritað á fjölmörg skilti mótmælenda. Mynd: EPA-EFE - EPA
Þúsundir kvenna söfnuðust saman í París og rúmlega 50 frönskum borgum og bæjum til viðbótar á föstudag til að mótmæla skipun nýs innanríkisráðherra í ríkisstjórn Emmanuels Macrons, Frakklandsforseta. Ástæðan er sú að ráðherrann, Gérald Darmanin, sætir nú rannsókn vegna nauðgunarkæru.

„Velkomin í nauðgunarráðuneytið" og „Nauðgarar eiga heima í fangelsi, ekki ráðherrastól" - þannig hljóða tvö af mörgum slagorðum sem lesa mátti á skiltum mótmælenda í borginni Toulouse. Í París og víðar mátti líka sjá skilti þar sem á var ritað: „Hvernig kemur maður sér hjá ákæru vegna nauðgunar? Með því að verða yfirmaður lögreglunnar.“

Er æðsti yfirmaður þeirra sem rannsaka eiga mál hans

Darmanin var kærður árið 2017 fyrir að hafa nauðgað konu átta árum fyrr. Eftir nokkrar frávísanir og jafnmargar áfrýjanir tókst lögmanni brotaþolans, með tilstilli áfrýjunardómstóls, að knýja saksóknaraembættið til að taka mál skjólstæðings síns til formlegrar rannsóknar.

Það gerðist fyrir rúmum mánuði síðan, en aðeins örfáum vikum síðar skipaði Macron Darmanin í embætti innanríkisráðherra. Þar sem innanríkisráðherra er æðsti yfirmaður lögreglu í Frakklandi er það því í raun Darmanin, sem á endanum ber ábyrgð á rannsókn lögreglu á máli hans sjálfs.

Hver eru skilaboð stjórnvalda til kvenna sem nauðgað er?

Blásið var til mótmælanna í dag af nokkrum kvenréttindasamtökum. „Þremur árum eftir #MeToo hefur franska ríkið sýnt það og sannað enn einu sinni, að öryggi og velferð kvenna er ekki forgangsmál. Hvaða skilaboð sendir franska ríkisstjórnin þeim konum, sem hika við að kæra nauðgun?" er spurt á Facebook-síðu skipuleggjenda. Auk mótmælanna í dag hefur verið efnt til undirskriftasöfnunar, þar sem þess er krafist að innanríkisráðherrann nýi verði látinn taka pokann sinn. Um 100.000 undirskriftir hafa þegar safnast.

Brotið framið 2009

Upphaf málsins má rekja til ársins 2009. Þá leitaði ung kona, Sophie Patterson-Spatz, lögfræðiaðstoðar hjá Darmanin sem þá átti sæti í dómsmálanefnd. Patterson-Spatz sakar hann um að hafa misnotað aðstöðu sína til að þvinga hana til kynmaka. Darmanin viðurkennir að hafa haft mök við Patterson-Spatz en neitar að hafa þvingað hana til þeirra.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV