Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki þarf veiðikort til músaveiða innandyra

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Verði frumvarp um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra að lögum verða allar veiðar á villtum fuglum og dýrum að vera sjálfbærar og lúta veiðistjórnun. Óheimilt verður að veiða ófleyga unga og ekki má veiða aðra fugla en lunda í háf. 

Frumvarpið, sem lagt er fram af Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfis- og auðlindaráðherra, er nú til umsagnar sem drög í samráðsgátt stjórnvalda. Með því er lögð fram heildarendurskoðun á lögum frá 1994 um veiðar og verndun villtra fugla og spendýra, en stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar kveður á um að þau skuli endurskoðuð.

Lagt er til að veiðar verði sjálfbærar og að tekið verði á því tjóni sem villt dýr kunna að valda. Umhverfisstofnun verða þá veittar auknar heimildir til að stýra veiðum á þeim og veita undanþágu frá friðunarákvæðum. 
Villt dýr og búsvæði þeirra fái aukna vernd. Þannig verði óheimilt að þeyta flautur, fljúga þyrlum eða flugvélum, sigla háværum skipum eða bátum eða vera með háreisti við fuglabjörg og selalátur.

Þá eru lagðar til undanþágur fyrir veiðimenn í hjólastól, um að þeir megi skjóta frá kyrrstæðum farartækjum, sem annars er óheimilt. Fækka á leyfilegum veiðiaðferðum og bannað verður að nota barefli og fótboga við veiðar.

Þá er lagt til að veiðikortakerfið verði einfaldað og nái yfir minkaveiðar, eggjatöku og hlunnindaveiðar. Tekið er sérstaklega fram að ekki þurfi veiðikort til músaveiða innandyra eða rottuveiða. 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir