„Ef á að opna vínflösku þarf ég að spila Dancing Queen“

Mynd: Úr einkasafni / .

„Ef á að opna vínflösku þarf ég að spila Dancing Queen“

11.07.2020 - 10:49

Höfundar

Daddi diskó á 40 ára diskótekaraafmæli og er 54 ára í ár, eins og diskóklúbburinn frægi Studio 54. „Þetta er þessi hefðbundna saga. Ég var rosa hlédrægur í skóla og á skólaböllum var maður að finna sér hlutverk, mitt var að stjórna tónlistinni.“

Rætt er við Dadda Diskó í fyrsta þætti af Party Zone – danstónlist í 40 ár, sem er á dagskrá laugardagskvöld í júlí ár Rás 2. Daddi segir að í byrjun hafi hann notast við tvö kasettutæki. „Svo var maður að forhlusta, stakk blýant í kasettuna til að setja hana á akkúrat réttan punkt.“ Hann segir erfitt fyrir yngra fólk að hugsa til þess að eitt helsta hlutverk plötusnúðarins hafi verið að eiga nógu mikið af músík. „Þarna hafði maður allar klær úti, maður tók upp úr útvarpinu, stundum Kananum.“ Hann byrjaði að spila á unglingaskemmtistöðunum D3 og Traffík, og þaðan lá leiðin í Hollywood. „Ég man ég var það ungur að ég þurfti sérstakt leyfi til að vera inni á staðnum.“

Í Hollywood á þessum tíma voru plötusnúðarnir með hljóðnema og kynntu stundum lögin auk þess að koma með tilkynningar - til að mynda um hvenær barinn lokaði, og í lok kvölds. „Ég heiti Daddi Diskó. Fyrir hönd eigenda og starfsfólks hér í Hollywood þakka ég ykkur fyrir komuna. Vonum að allir gangi hægt um gleðinnar dyr. Svo Búm! Kýlt á þemalagið, og öll ljósin og reykvélarnar.“ Gunnar Þórðarson, einn fremsti lagahöfundur og upptökustjóri landsins á þessum árum, samdi þemalagið fyrir staðinn, diskóslagarann Allir eru stjörnur í Hollywood, sem virðist því miður hafa týnst í tímans rás.

Mynd: Pexels / Pexels
Dadddi tók að sjálfsögðu stutt diskósett fyrir Party Zone.

Ólafur Laufdal sem rak Hollywood rak nokkra aðra staði, þar á meðal Hótel Borg, Sjallann og Broadway. „Maður gat lent í því að spila á annarri hæð á Holly, það var algjört sveitaball, Rabbabara Rúna og allt í tómu rugli. Ef maður stóð sig vel fékk maður að spila niðri. Svo var náttúrulega klikkað að spila upp í gamla Broadway sem þá var stærsta diskótek í Evrópu. Maður var með 800 manna dansgólf. Það var algjör sturlun.“ Daddi segir að gömlu diskótekararnir hafi setið eftir þegar verið var að gera upp. „Við kepptum öll að sama marki, að selja fullt af af brennivíni og ógeðslega marga miða.“

Með tímanum urðu plötusnúðar meiri stjörnur, teknískari og betri. Þá breyttist líka skemmtanaumhverfið og fór úr stórum klúbbum eins og Hollywood yfir í marga minni bari. Þegar þar var komið sögu varð til sérstök stétt hlaupara sem hljóp með sjaldgæfar plötur milli staða þar sem DJ-ar skiptu þeim á milli sín. „Sama platan var kannski spiluð 1-2 á þremur stöðum sama kvöldið.“ Nú sé hins vegar gríðarlegt aðgengi að ógrynni danstónlistar en fólk sé hins vegar miklu kröfuharðara og óþolinmóðara. „Það er ekki til að leggja sig fram til að upplifa eitthvað nýtt, sem er grátlegt.“ Daddi segist vera í miklum metum hjá ákveðinni kynslóð fólks. „Það eru ákveðnir árgangar af fólki þannig að ef það á að opna einhvers staðar vínflösku þarf ég að koma og spila Dancing Queen. Svo er ég meira í fyrirtækis-giggum og lítið á skemmtistöðunum núna.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Kvöldið sem diskóið var sprengt í loft upp

Popptónlist

Hljóðkerfin og plötusnúðastjörnurnar á Jamaíku

Tónlist

„Djamm er ekki bara djamm“

Tónlist

Plötusnúður og frumkvöðull lést fyrir 20 árum