
25 ár liðin frá þjóðarmorði í Srebrenica
Þennan dag, 11. júlí, árið 1995 héldu hersveitir Bosníuserba inn í bæinn Srebrenica og tóku af lífi um átta þúsund bosníska múslima, flestir voru karlar á aldrinum 16 til 60 ára.
Radko Mladic, sem þá var æðsti yfirmaður hers Bosníu-Serba, sagði óttaslegnu fólkinu að það væri engin ástæða til að hræðast áður en hersveitir hans létu til skarar skríða. Fjöldamorðin stóðu yfir í tíu daga.
Bærinn var á verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna og hollenskir friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna gerðu ekkert til að stöðva ódæðið. Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, lýsti því síðar yfir að harmleikurinn í Srebrenica ætti eftir að varpa skugga á sögu Sameinuðu þjóðanna um alla framtíð.
Minnast ástvina í dag
Þeirra sem létust er minnst í dag í Srebrenica. Yfirleitt koma tugir þúsunda saman á slíkum athöfnum en skipuleggjendur búast við að vegna COVID-19 mæti færri í ár. Í morgun voru níu manns, sem voru tekin af lífi í þjóðernishreinsununum í Srebrenica fyrir tuttugu og fimm árum, lagðir til grafar í kirkjugarði fyrir utan bæinn. Ekki tókst að bera kennsl á líkin fyrr en nýlega.
Srebrenica er í austurhluta Bosníu Hersegovinu við landamærin að Serbíu. Múslimar voru um þriðjungur íbúa svæðisins. Áætlun Mladic gekk út á að ná svæðinu undir stjórn Serba með þjóðernishreinsunum.
Dæmdir fyrir stríðsglæpi
Mladic var fyrir þremur árum dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir stríðsglæpi og þjóðarmorð í Júgóslavíustríðinu fyrir stríðsglæpadómstóli Sameinuðu þjóðanna. Áfrýjunardómstóll stríðsglæpadómstóla, dæmdi í fyrra Radovan Karardzic, fyrrverandi leiðtoga Bosníu-Serba, í lífstíðarfangelsi fyrir þjóðarmorð í Bosníu og stríðsglæpi á dögum Balkanskagastríðsins, þar á meðal fyrir fjöldamorðið í Srebrenica. Þetta eru talin mestu grimmdarverk í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.