Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

25 ár liðin frá þjóðarmorði í Srebrenica

11.07.2020 - 12:27
epa08539950 Bosnian Muslims offer prayers during a funeral ceremony at the Potocari Memorial Center and Cemetery, in Srebrenica, Bosnia and Herzegovina, 11 July 2020. The burial was part of a memorial ceremony to mark the 25th anniversary of the Srebrenica genocide, considered the worst atrocity of Bosnia's 1992-95 war. More than 8,000 Muslim men and boys were executed in the 1995 killing spree after Bosnian Serb forces overran the town.  EPA-EFE/FEHIM DEMIR
Fólk minnist ástvina sem teknir voru af lífi í Srebrenica árið 1995.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Tuttugu og fimm ár eru í dag liðin frá þjóðarmorði í bænum Srebrenica í Bosníu. Fórnarlömb voðaverkanna, sem borin voru kennsl á síðustu mánuði, voru jarðsett í dag.

Þennan dag, 11. júlí, árið 1995 héldu hersveitir Bosníuserba inn í bæinn Srebrenica og tóku af lífi um átta þúsund bosníska múslima, flestir voru karlar á aldrinum 16 til 60 ára.

Radko Mladic, sem þá var æðsti yfirmaður hers Bosníu-Serba, sagði óttaslegnu fólkinu að það væri engin ástæða til að hræðast áður en hersveitir hans létu til skarar skríða. Fjöldamorðin stóðu yfir í tíu daga.

Bærinn var á verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna og hollenskir friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna gerðu ekkert til að stöðva ódæðið. Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, lýsti því síðar yfir að harmleikurinn í Srebrenica ætti eftir að varpa skugga á sögu Sameinuðu þjóðanna um alla framtíð. 

Minnast ástvina í dag

Þeirra sem létust er minnst í dag í Srebrenica. Yfirleitt koma tugir þúsunda saman á slíkum athöfnum en skipuleggjendur búast við að vegna COVID-19 mæti færri í ár. Í morgun voru níu manns, sem voru tekin af lífi í þjóðernishreinsununum í Srebrenica fyrir tuttugu og fimm árum, lagðir til grafar í kirkjugarði fyrir utan bæinn. Ekki tókst að bera kennsl á líkin fyrr en nýlega. 

Srebrenica er í austurhluta Bosníu Hersegovinu við landamærin að Serbíu. Múslimar voru um þriðjungur íbúa svæðisins. Áætlun Mladic gekk út á að ná svæðinu undir stjórn Serba með þjóðernishreinsunum.

Dæmdir fyrir stríðsglæpi

Mladic var fyrir þremur árum dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir stríðsglæpi og þjóðarmorð í Júgóslavíustríðinu fyrir stríðsglæpadómstóli Sameinuðu þjóðanna. Áfrýjunardómstóll stríðsglæpadómstóla, dæmdi í fyrra Radovan Karardzic, fyrrverandi leiðtoga Bosníu-Serba, í lífstíðarfangelsi fyrir þjóðarmorð í Bosníu og stríðsglæpi á dögum Balkanskagastríðsins, þar á meðal fyrir fjöldamorðið í Srebrenica. Þetta eru talin mestu grimmdarverk í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.