Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vaxtalækkanir blása krafti í fasteignamarkaðinn

Mynd: Aðsend / Aðsend
Vaxtalækkanir hafa blásið meiri krafti í fasteignamarkaðinn en gert var ráð fyrir. Þetta segir Una Jónsdóttir, hagfræðingur á hagfræðideild Landsbankans, í viðtali í Síðdegisútvarpinu dag.

Una segir hagfræðideildina hafa búist við því að óvissa á mörkuðum myndi draga úr áhuga fólks á fasteignakaupum en eftirspurnin hafi verið meiri en búist var við. Íbúðaverð hafi hækkað milli mánaða í maí, enda hafi stýrivaxtalækkanir bætt vaxtakjör á húsnæðislánum hjá lánastofnunum. 

„Það þýðir að greiðslubyrði af lánum lækkar og ráðstöfunartekjur fólks aukast. Svo getur þetta líka þýtt að það skapast meira svigrúm til fasteignakaupa. Ef fólk vill halda óbreyttri greiðslubyrði þá er hægt að taka hærra lán og bjóða hærra verð í fasteign. Það er kannski það sem hefur verið að gerast,“ segir Una.  

Bankarnir aldrei lánað meira fyrir íbúðarkaupum en í maí

Hrein ný útlán íslensku viðskiptabankanna vegna íbúðakaupa hafa aldrei verið meiri í einum mánuði en þau voru í maí síðastliðnum. Ný útlán námu 22,3 milljörðum króna. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem kom út í gær.

Í skýrslunni segir einnig að meðalsölutími hafi styst frá því í fyrra og íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 5,5 prósent milli ára í maímánuði.

Á miðvikudag greindi RÚV einnig frá því að methreyfing hefði verið á fasteignamarkaði í maí og júní. Samkvæmt tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafi fjórðungi fleiri eignir selst á fyrstu sex mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra.

Gerir ekki ráð fyrir aukinni verðbólgu

Aðspurð segir Una að vaxtakjör á næstu mánuðum velti að mestu á því hvort áfram takist að halda verðbólgu í skefjum. Aðspurð hvers vegna verðbólga hafi haldist stöðug í efnahagsþrengingunum segir hún aðstæður allt aðrar en í síðasta hruni og að taumhald peningastefnunefndar og stjórnvalda hafi verið nokkuð gott.

Hagfræðideild Landsbankans spái því ekki að verðbólga fari á flug á næstunni, frekar sé gert ráð fyrir verðhjöðnun í júlí eins og oft á sumrin.