Líkt og ástarsögur, sem einnig eru vinsælar aflestrar á sumrin, byggjast glæpasögur á ákveðnum mynstrum og oft talað um þær sem formúlubókmenntir. Formúlur duga þó skammt einar og sér þegar bókmenntir eru annars vegar. Sagan, fléttan og framvindan verður allt í senn að vera spennandi og áhugaverð og í takti við samfélagið þar sem glæpurinn er framinn, hvort heldur um er að ræða skuggasund stórborgar, friðsæla bryggju í smábæ eða stofu á óðalsetri. Þá skiptir persónusköpun miklu máli og að brydda upp á nýjungum, að minnsta kosti tilbrigðum við hið kunnuglega án þess þó að svipta lesendur öryggi sínu.
Í þættinum Orð um bækur hefur á síðustu vikum verið rætt við tvo glæpasagnahöfunda um nýjustu bækur þeirra sem og við einn þýðanda nýrrar norskrar glæpasögu. Þetta eru ólíkar sögur um leið og þær fylgja allar ákveðnu mynstri innan glæpasagnahefðarinnar, sem kannski er í tísku einmitt núna, en það er spurningin um morðið sjálft: Er sá sem tekur í gikkinn, mundar hnífinn, ber fórnarlambinu eitrið morðingi?
Fléttar saman sögum af mannshvarfi, misnotkun og sjálfsskaða á frumlegan hátt
Í byrjun júní tók Sólveig Pálsdóttir við verðlaunum Hins íslenska glæpafélags, Blóðdropanum, fyrir bestu glæpasögu síðasta árs og er skáldsagan Fjötrar eftir Sólveigu þar með framlag Íslands til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna, veitt eru árlega.
Sólveig Pálsdóttir er menntuð leikkona og bókmenntafræðingur og sameinaði þessi fög í kennslu í sautján ár. Skyndilega skrifaði Sólveig Pálsdóttir svo sína fyrstu glæpasögu. Leikarinn hét hún og kom út hjá Forlaginu árið 2012 og náði talsverðum vinsældum.
Glæpasögur höfðu þá um tíma verulega sótt í sig veðrið; Arnaldur Indriðason og Árni Þórarinsson voru mjög vinsælir og Yrsa Sigurðardóttir fylgdi þar fast á eftir. Viktor Arnar Ingólfsson hafði á þessum tíma einnig sent frá sér fáeinar bækur og árið 2006 sendi Ragnar Jónasson frá sér sína fyrstu glæpasögu og þremur árum síðar Lilja Sigurðardóttir. Þóttu bæði góð viðbót við íslenska glæpasagnaflóru.
Íslenska lesendur þyrsti augljóslega í glæpasögur og þótt höfundarnir sem dældu nær árlega glæpasögum út á markaðinn væru ekki kannski ekki mjög margir þá höfðu þeir hver og einn sinn stíl og glæpirnir, það er umfjöllunarefni bókanna, að sama skapi fjölbreytileg. Sögusvið íslenskra glæpasagna er líklega í flestum tilvikum Reykjavík en fjölmargar, einkum bækur Ragnars Jónassonar, gerast líka úti á landi og fáeinar í útlöndum.
Dómnefnd Blóðdropans skipuðu að þessu sinn Páll Kr. Pálsson rithöfundur, Helga Birgisdóttir íslenskufræðingur og Kristján Atli Ragnarsson rithöfundur. Þau gerðu þau eftirfarandi grein fyrir þeirri niðurstöðu sinni að veita Sólveigu Pálsdóttur Blóðdropann fyrir skáldsöguna Fjötrar:
„Í sögunni fléttar Sólveig á frumlegan og öruggan hátt saman sögum af mannshvarfi, misnotkun og sjálfsskaða í spennandi frásögn sem litast af leyndarmáli fjölskyldna. Ljóst er að lesandinn er í öruggum höndum höfundar sem hefur góð tök á öllum þráðum fléttunnar og hefur vandað til verks. Frásögn Sólveigar er í senn spennandi, áhugaverð, kíminn og sorgleg og afraksturinn er bók sem lætur engan ósnortinn.“