Sumarið er árstíð glæpasagna

Mynd með færslu
 Mynd: Jórunn Sig - RÚV

Sumarið er árstíð glæpasagna

10.07.2020 - 11:50

Höfundar

Á hverju ári koma út um það bil tuttugu nýjar íslenskar glæpasögur og annað eins af þýddum skáldsögum þar sem glæpur, yfirleitt morð, er í brennidepli og sagan fylgir síðan eftir hvernig einn rannsakandi eða hópur kemst að raun um hver sé hinn seki svo réttlætinu megi fullnægja og sagan endi vel. Oft er talað um glæpasögur sem formúlubókmenntir, en málið er ekki alveg svo einfalt.

Líkt og ástarsögur, sem einnig eru vinsælar aflestrar á sumrin, byggjast glæpasögur á ákveðnum mynstrum og oft talað um þær sem formúlubókmenntir. Formúlur duga þó skammt einar og sér þegar bókmenntir eru annars vegar. Sagan, fléttan og framvindan verður allt í senn að vera spennandi og áhugaverð og í takti við samfélagið þar sem glæpurinn er framinn, hvort heldur um er að ræða skuggasund stórborgar, friðsæla bryggju í smábæ eða stofu á óðalsetri. Þá skiptir persónusköpun miklu máli og að brydda upp á nýjungum, að minnsta kosti tilbrigðum við hið kunnuglega án þess þó að svipta lesendur öryggi sínu.

Í þættinum Orð um bækur hefur á síðustu vikum verið rætt við tvo glæpasagnahöfunda um nýjustu bækur þeirra sem og við einn þýðanda nýrrar norskrar glæpasögu. Þetta eru ólíkar sögur um leið og þær fylgja allar ákveðnu mynstri innan glæpasagnahefðarinnar, sem kannski er í tísku einmitt núna, en það er spurningin um morðið sjálft: Er sá sem tekur í gikkinn, mundar hnífinn, ber fórnarlambinu eitrið morðingi?

Fléttar saman sögum af mannshvarfi, misnotkun og sjálfsskaða á frumlegan hátt

Í byrjun júní tók Sólveig Pálsdóttir við verðlaunum Hins íslenska glæpafélags, Blóðdropanum, fyrir bestu glæpasögu síðasta árs og er skáldsagan Fjötrar eftir Sólveigu þar með framlag Íslands til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna, veitt eru árlega.

Sólveig Pálsdóttir er menntuð leikkona og bókmenntafræðingur og sameinaði þessi fög í kennslu í sautján ár. Skyndilega skrifaði Sólveig Pálsdóttir svo sína fyrstu glæpasögu. Leikarinn hét hún og kom út hjá Forlaginu árið 2012 og náði talsverðum vinsældum.

Glæpasögur höfðu þá um tíma verulega sótt í sig veðrið; Arnaldur Indriðason og Árni Þórarinsson voru mjög vinsælir og Yrsa Sigurðardóttir fylgdi þar fast á eftir. Viktor Arnar Ingólfsson hafði á þessum tíma einnig sent frá sér fáeinar bækur og árið 2006 sendi Ragnar Jónasson frá sér sína fyrstu glæpasögu og þremur árum síðar Lilja Sigurðardóttir. Þóttu bæði góð viðbót við íslenska glæpasagnaflóru.

Íslenska lesendur þyrsti augljóslega í glæpasögur og þótt höfundarnir sem dældu nær árlega glæpasögum út á markaðinn væru ekki kannski ekki mjög margir þá höfðu þeir hver og einn sinn stíl og glæpirnir, það er umfjöllunarefni bókanna, að sama skapi fjölbreytileg. Sögusvið íslenskra glæpasagna er líklega í flestum tilvikum Reykjavík en fjölmargar, einkum bækur Ragnars Jónassonar, gerast líka úti á landi og fáeinar í útlöndum.

Dómnefnd Blóðdropans skipuðu að þessu sinn Páll Kr. Pálsson rithöfundur, Helga Birgisdóttir íslenskufræðingur og Kristján Atli Ragnarsson rithöfundur. Þau gerðu þau eftirfarandi grein fyrir þeirri niðurstöðu sinni að veita Sólveigu Pálsdóttur Blóðdropann fyrir skáldsöguna Fjötrar:

„Í sögunni fléttar Sólveig á frumlegan og öruggan hátt  saman sögum af mannshvarfi, misnotkun og sjálfsskaða í spennandi frásögn sem litast af leyndarmáli fjölskyldna. Ljóst er að lesandinn er í öruggum höndum höfundar sem hefur góð tök á öllum þráðum fléttunnar og hefur vandað til verks. Frásögn Sólveigar er í senn spennandi, áhugaverð, kíminn og sorgleg og afraksturinn er bók sem lætur engan ósnortinn.“

Mynd: Jórunn Sigurðardóttir / Jórunn Sigurðardóttir
Sólveig Pálsdóttir með Blóðdropann og verðlaunabókina Fjötra

Verðlaunabók Sólveigar Pálsdóttur Fjötrar er samtímasaga og hefst eins og svo margar glæpasögur á dauðsfalli, mögulega morði. Í fortíð fórnarlambsins kemur svo í ljós mannshvarf sem líka gæti verið morð. Flókið mál fyrir rannsóknarteymi sem Sólveig hefur í öllum sínum fimm bókum stefnt fram og gefið mismikið rými í hverri bók.

Seríur bóka, sem oft er haldið saman af sömu rannsóknaraðilum frá bók til bókar, eru algengar innan glæpasagnahefðarinnar. Þessi aðferð hentar augljóslega vel til að skapa kunnuglegt umhverfi og traust í framvindu sem í glæpasögum getur á köflum verið hrottaleg, full af illsku og óheilindum.

Sólveig stóð á fimmtugu þegar hún sendi frá sér sína fyrstu glæpasögu. Það var námskeið í skapandi skrifum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni myndlistarmanni og rithöfundi sem kom boltanum af stað og fyrstu drögin að skáldsögunni Leikarinn varð til. Síðan þá hefur hver sagan rekið aðra.

„Glæpasagnaformið fann mig,“ segir Sólveig, „og mér fannst strax svo gott að skrifa inn í það form ekki síst vegna þess að þegar fólk er komið inn í svona ýktar aðstæður sem glæpur er að þá birtist það í nýju ljósi. Það er fólkið sem vekur áhuga minn, ekki glæpirnir. [...] Ég skrifa um venjulegt fólk sem lendir í einhverjum aðstæðum. Oftast er það eitthvað í samfélaginu sem kallar á mig, eins og til dæmis þöggun, ofstæki, kynferðisleg misnotkun og fleira. [...] og ég leggst alltaf í mikla rannsóknarvinnu fyrir allar mínar bækur.“ 

Átti upphaflega að vera ein saga

Ármann Jakobsson miðaldafræðingur er afkastamikill fræðimaður en hefur síðasta áratug samhliða fræðistörfum sínum sent frá sér einar átta skáldsögur. Sú fyrsta Vonarstræti, sem kom út árið 2008, var raunar heimildaskáldsaga um áa Ármanns sjálfs, hin glæsilegu en líka umdeildu hjónin Skúla Thoroddsen og Theódóru Thoroddsen. Sama ár kom einnig út bókin Fréttir frá mínu landi: Óspakmæli og örsögur eftir Ármann.

Með þessum tveimur ólíku bókum virðist stífla hafa brostið og hver bókin rekið aðra frá Ármanni. Barna- og unglingabækur, sögulegar skáldsögur og núna á síðustu tveimur árum einar fjórar glæpasögur; ein fyrir börn og unglinga og þrjár um glæpi sem morðdeildarteymi, Bjarni, Margrét, Kristín, Njáll og nokkrir fleiri, þarf að leysa.

Mynd: Jórunn Sigurðardóttir / Jórunn Sigurðardóttir
Ármann Jakobsson miðaldafræðingur og höfundur skáldsögunnar Tríbrá

„Mig langaði alltaf til að skrifa skáldsögu sem gerðist í nútímanum og það vildi þannig til að þær fyrstu voru sögulegar,“ segir Ármann um upphaf skáldsagnaskrifa sinna. „Glæpasagan er svolítið fastara form og svo vill fólk líka gjarnan margar glæpasögur og það hentar mér vel, sem finnst gaman að skrifa. [...] Upphaflega ætlaði ég bara að skrifa eina sögu en með öllum nauðsynlegum upplýsingum varð hún allt of löng. Ég ákvað því að gera þá sögu að seríu með sama rannsóknarteyminu og nota bara lítið brot af upplýsingunum um þetta fólk í fyrstu bókinni en gat svo bætt við í næstu bókum.

Glæpir bókanna þriggja sem teymi morðrannsóknardeildarinnar þarf að kljást við eru afar ólíkir sem og sögusviðið. Í fyrstu bókinni Útlagamorðin er um kynferðisglæp að ræða og sögusviðið er þorp sem er nánast persóna í sjálfu sér. Í skáldsögunni Urðarköttur er sögusviðið hins vegar vinnustaður og morðinginn er ævinlega mjög nærri.

Í nýjustu bók Ármanns Tíbrá er það svo glæpurinn sem er í brennidepli og morðdeildarteymið kemur ekki inn í atburðarás sögunnar fyrr en nokkuð er liðið á hana. Til að byrja með fylgist lesandinn fyrst og fremst með sundurlausum vinahópi sem kjarnast í tveimur afar ólíkum systkinum og mökum þeirra. Sagan tekur margan snúningin og endalokin koma vægast sagt mjög á óvart. 

Nýtir sér sérþekkingu sína sem sálfræðingur til skrifanna

Þerapistinn er fyrsta bók norska sálfræðingsins Helene Flood sem vinnur einkum við rannsóknir og hefur þar einbeitt sér að áhrifum áfalla. Flood nýtir þessa sérþekkingu afar fimlega og sannfærandi í sögunni, sem telst til þess flokks glæpasagna sem kallaðar hafa verið á íslensku, sálfræðitryllir. Í slíkum sögum skiptir innra líf aðalsögupersónanna ekki síður máli en glæpurinn sem til rannsóknar er.

Aðalpersóna skáldsögunnar Þerapistinn er Sara, ungur sálfræðingur sem vinnur við að aðstoða ungt fólk í sálrænum vanda. Þegar sagan hefst er hún hins vegar komin í helgarfrí og horfir fram á góðar stundir ein heima hjá sér því ástkær eiginmaðurinn er farinn í fjallakofa með nokkrum vinum. Fljótlega kemur hins vegar í ljós að þangað kom eiginmaðurinn aldrei og ýmislegt varðandi upplýsingar eiginmannsins og ferðafélaga hans og ferðalagið kemur ekki heim og saman.

Fyrr en varir er lögreglan komin í málið og spyr spurninga um samlíf Söru og eiginmannsins sem og samskipti hennar við skjólstæðinga sína og stórfjölskyldu sem afhjúpar ýmislegt sem ætlað hafði verið að lægi í þagnargildi.

Eins og sálfræðitryllar eru gjarnan er Þerapistinn er nokkuð löng bók en einnig afar spennandi. Bókinni hefur verið mjög vel tekið og var þýðingarrétturinn strax seldur til fjölda landa við útkomu bókarinnar í Noregi.

Halla Kjartansdóttir þýðir skáldsöguna. Hún segir stíl norrænna glæpasagna yfirleitt vera afar blátt áfram þannig að í þýðingunni geti stundum verið nokkuð flókið að finna rétta tóninn í hversdagsmálinu, sem jafnframt verður að vera nákvæmt, ekki síður en lipurt og leikandi.

Mynd: Benedikt / Benedikt
Helene Flood Aakvaag sálfræðingur og höfundur Þerapistans

Tengdar fréttir

Erlent

Af hverju elskum við sannar glæpasögur?

Bókmenntir

Yrsa meðal bestu glæpasagnahöfunda heims að mati Times

Bókmenntir

Yrsa og Ragnar stofna ný glæpasagnaverðlaun

Bókmenntir

Tískusveiflur í glæpasögum