Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Styrkja Stígamót um 20 milljónir

Mynd með færslu
 Mynd: Félagsmálaráðuneytið
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur tekið ákvörðun um að styrkja starfsemi Stígamóta um tuttugu milljónir króna næsta árið. Aukið álag hefur verið í þjónustu samtakanna að undanförnu. Styrkveitingunni er ætlað að létta álagið og draga úr biðtíma eftir þjónustunni.

Í tilkynningu frá Félagsmálaráðuneytinu segir að eftirspurn eftir þjónustu samtakanna hafi aukist undanfarin misseri. Styrkurinn gerir samtökunum gert kleift að ráða tvo nýja ráðgjafa til starfa. 

Ásmundur segir í tilkynningunni að nauðsynlegt sé að efla Stígamót vegna bakslags í ofbeldismálum sem rekja má til kórónuveirufaraldursins. „Ofbeldi eykst oft i samfélaginu í kjölfar erfiðra tímabila, líkt og Covid-19 faraldursins. Það er því mjög mikilvægt að við aukum úrræði fyrir einstaklinga sem verða fyrir hvers kyns ofbeldi og greiðum aðgengi þeirra að þjónustunni. Stígamót hafa um áratugaskeið unnið vandað og mikilvægt starf með þolendum kynferðisofbeldis. Stuðningurinn við Stígamót er hluti af félagslegum aðgerðapakka þar sem við ætlum að grípa þá hópa sem verða fyrir miklum áhrifum vegna faraldursins,“ segir hann.

Stígamót hafa verið starfrækt frá árinu 1990. Markmið samtakanna er að koma til móts við fórnarlömb kynferðisofbeldis. Þar starfa ellefu konur og einn karl sem meðal annars sinna ráðgjöf. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV