
Nýtt mastur stóreykur fjarskiptaöryggi á Siglufirði
Aðventustormurinn opinberaði veikleika
Mörg hundruð heimili og fyrirtæki urðu fyrir verulegum rafmagnstruflunum þegar aðventustormurinn svokallaði gekk yfir landið. Ástandið var einna verst í Fjallabyggð þar sem auk rafmagnsleysis urðu truflanir á fjarskiptum. Neyðarlínan hefur nú komið fyrir nýju mastri við hús Björgunarsveitarinnar Stráka í Siglufirði. Elías Pétursson, bæjarstjóri í Fjallabyggð segir mastrið bæta fjarskiptaöryggi í bænum til muna en óveðrið í desember opinberaði veikleika í kerfinu.
„Mun skila miklu meira öryggi“
„Þetta er ríflega þrjátíu metra hátt mastur þar sem meiningin er að sameina alla senda og móttakara fyrir samskipti sem þurfa að vera á neyðartímum. Þetta mun skila miklu meira öryggi í öllum samskiptum. Það kom í ljós í þessu óveðri sem var í desember að eitt af því sem að klikkaði voru í rauninni samskipti á milli viðbragðsaðila. Að hlut til vegna rafmagnsleysis Þetta mun gjörbreyta öllu hvað það varðar. Einnig mun þetta bæta farsímasaband á þessum tímum þegar rafmagnsleysi verður langvarandi,“ segir Elías.
Eru einhverjar fleiri aðgerðir tengdar þessu á teikniborðinu hjá ykkur?
„Ekkert sem að mér er kunnugt um. Hins vegar veit ég að bæta eigi varaafl við senda víðar á landinu sem er mjög gott.“