Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Næstum sjötíu þúsund hafa sótt ferðagjöf stjórnvalda

Mynd: RÚV / RÚV
Tæplega sjötíu þúsund Íslendingar hafa sótt ferðagjöf stjórnvalda og yfir tuttugu þúsund hafa þegar nýtt hana.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segist vona að ferðagjöfin kveiki áhuga landsmanna á að nýta í meira mæli þá afþreyingu sem er í boði innanlands. Hann segir fyrirtækin taka vel í ferðagjöfina og að þátttaka almennings sé mikil. 

„Ég held að þetta sé að gera það sem til var ætlast, kannski svona að ýta við fólki að nýta sér þá þjónustu sem er í boði og kynnast því hvað hægt er að kaupa af ferðaþjónustunni í landinu. Og það gerir það að verkum og við vonumst til þess að þetta ýti undir áhuga innanlandsmarkaðarins á ferðum innanlands næstu árin,“ segir Jóhannes í viðtali í kvöldfréttum.  

Tæp þrjátíu og þrjú prósent þeirra sem nýtt hafa ferðagjöfina hafa varið henni á gististöðum, tæp þrjátíu prósent hafa nýtt hana við kaup á veitingum, önnur tæp þrjátíu prósent hafa varið henni í ýmiss konar afþreyingu og rúm níu prósent í samgöngur. 

„Íslendingar búnir að vera hressir og skemmtilegir“

Samúel Alexandersson, einn eigenda fyrirtækisins Zipline Iceland í Vík í Mýrdal, segir fyrirtækið hafa fengið fjöldann allan af íslenskum gestum í sumar og að fjöldinn jafnist sennilega á við fjölda erlendra ferðamanna áður.

Samúel gleðst yfir því hvað „Íslendingar eru búnir að vera hressir og skemmtilegir“. Hann segir þó ekki marga hafa nýtt ferðagjöfina hjá fyrirtækinu. „Fólki finnst eitthvað flókið að nýta sér hana, sækja app og svona en jú það eru nokkrir,“ segir Samúel.