Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nær allar tegundir lemúra í útrýmingarhættu

10.07.2020 - 07:02
Mynd með færslu
 Mynd: Marta Diarra - Flickr
Nokkurn veginn allar tegundir lemúra eru í útrýmingarhættu, samkvæmt Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum. Samtökin hafa birt sinn árlega válista, þar sem fjallað er um ástand og afkomu ríflega 120.000 dýrategunda um allan heim. Samkvæmt honum er um fjórðungur þeirra í mismikilli útrýmingarhættu. Þar á meðal eru 103 af þeim 107 tegundum lemúra sem þekktar eru í heiminum. Og af þeim eru 33 tegundir í bráðri útrýmingarhættu og og á mörkum þess að deyja út í náttúrunni.

Þjóðargersemi á Madagaskar

Lemúrar eru svokallaðir hálfapar og náttúruleg heimkynni þeirra er eingöngu að finna í skógum eyríkisins Madagaskar. Þótt þeir teljist til þjóðargersema þar í landi á hátíðarstundum er hart sótt að þeim og heimkynnum þeirra úr öllum áttum.

Fátækt er mikil á Madagaskar, farsóttir eru þar algengar og innviðir óburðugir. Stjórnvöld hafa því lítið aflögu til umhverfis- og náttúruverndar. Talsverðar tekjur er hins vegar að hafa af skógarhöggi og akuryrkju. Er nú svo komið að um 40 prósentum skóglendis á Madagaskar - og þar með náttúrulegum heimkynnum lemúra - hefur verið eytt á síðustu 70 árum.

„Ef menn eyðileggja eða gjörbreyta heimkynnum lemúranna í skógunum, þá lifa þeir ekki af,“ segir Russ Mittermeier, sérfræðingur í prímötum hjá Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum.

Til að bæta gráu ofan á svart er svartamarkaðsbrask með lemúra arðsöm iðja, því víða má finna óvandað fólk sem er tilbúið að greiða háar fjárhæðir til að eignast lemúr sem gæludýr.