Myrku hliðar gleðiþáttanna Glee

Mynd með færslu
 Mynd: Fox

Myrku hliðar gleðiþáttanna Glee

10.07.2020 - 10:52
Sjónvarpsþættirnir Glee nutu mikilla vinsælda á árunum 2009-2015. Þættirnir fjalla um söngelska unglinga í sýningarkór (e. show choir) Willam McKinley menntaskólans. Þættirnir voru lofaðir fyrir fjölbreytni, tóku á málefnum hinsegin fólks, svartra og litaðra auk allra þeirra vandamála sem ungt fólk þarf að takast á við á unglingsárunum. Það virðist hins vegar hvíla bölvun á þáttunum, eða í það minnsta þeim leikurum sem tóku þátt í þeim.

Í gær bárust fréttir af því að leikkonan Naya Rivera, sem þekktust er fyrir hlutverk sitt sem Santana Lopez í Glee, væri týnd og mögulega látin. Leit stóð yfir að Riveru í gær og fyrradag við Piru-vatn í Kaliforníu en fjögurra ára sonur hennar, Josey, fannst þar einn og yfirgefinn á báti eftir að lögreglunni barst útkall um barn sem svæfi eitt á báti úti á vatninu. Rivera á að hafa leigt bátinn til að fara með syni sínum út á vatnið. Hann fannst klæddur björgunarvesti í bátnum en móðir hans er sögð hafa verið á sundi í vatninu og ekki komist aftur upp í bátinn. Björgunarvesti fannst um borð í bátnum og því talið að Rivera hafi ekki klæðst einu slíku.

epa08536029 (FILE) - US actress Naya Rivera arrives at the 40th People's Choice Awards held at the Nokia Theater in Los Angeles, California, USA, 08 January 2014 (reissued 09 July 2020).
Naya Rivera, 33, who portrayed the character of Santana Lopez in Glee, went missing on 08 July 2020 while on a boating trip in Lake Piru in California with her 4 year old son, who was later found alone sleeping in the boat. Ventura County Sheriff’s Office said that it was searching for a “possible drowning victim” in the lake.  EPA-EFE/NINA PROMMER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Naya Rivera

Þessar fregnir af Riveru bætast við hræðileg örlög annarra leikara úr þáttunum, fréttum af ofneyslu á eiturlyfjum, sjálfsvígum, vörslu barnakláms og almennum óreiðum og einelti á tökustað þáttanna. Þættirnir voru á dagskrá á árunum 2009-2015 og á meðan þeim stóð og eftir að þeim lauk virðast áföllin fylgja leikurum þáttanna, svo mikið að einhverjir hafa farið að tala um „Glee bölvunina.“

Fyrsta áfallið varð í júlí 2013 þegar fjórðu þáttarröð þáttanna var nýlokið. Cory Monteith, sem fór með hlutverk Finn Hudson, fannst þá látinn vegna ofskammts af eiturlyfjum á hótelherbergi í Vancouver í Kanada. Hann hafði þá innbyrt banvæna blöndu af heróíni og áfengi. Andlátið var áfall fyrir marga aðdáendur en Monteith hafði ungur byrjað að drekka og hafði nítján ára gamall farið tvisvar í meðferð. Samkvæmt móður hans hafði honum tekist að halda sér hreinum eftir það en Hollywood lífið hafði valdið því að hann tók upp gamlar venjur og byrjað að nota eiturlyf aftur í desember 2012, stuttu áður en hann lést.

Á þessum tíma höfðu Monteith og samstarfskona hans í þáttunum, Lea Michele, verið saman í þónokkurn tíma og áfallið því ekki síður mikið fyrir hana og aðra aðstandendur þáttanna. Michele steig fram og tjáði sig um málið á Teen Choice verðlaunahátíðinni tveimur mánuðum síðar þar sem hún tileinkaði Monteith verðlaunin sem hún hlaut sem sjónvarpsleikkona ársins. Michele á í dag von á barni með eiginmanni sínum, Zandy Reich, en styr hefur staðið um hann upp á síðkastið eins og farið verður yfir hér á eftir. 

Í desember 2015 var Mark Salling, sem lék Noah Puckerman, handtekinn og kærður fyrir vörslu á barnaklámi. Við húsleit fundust fleiri en 50 þúsund myndir bæði á tölvu Salling og á USB drifum. Lögreglan hafði komist á snoðir um efnið eftir ábendingu frá fyrrverandi kærustu hans en hann hafði áður verið kærður kynferðislegt ofbeldi. Salling var kærður fyrir vörsluna í maí 2016 og í september 2017 játaði hann sig sekan. Áætlað var að sakarjátningin myndi leiða til fjögurra til sjö ára fangelsisdóms auk annarra afleiðinga, hann myndi til dæmis þurfa að skrá sig sem kynferðisafbrotamann. Dómur átti formlega að falla í mars 2018 en 30. janúar það ár fannst Salling látinn á heimili sínu. Hann hafði þá tekið eigið líf. 

epa06486786 (FILE) - US actor Mark Salling of Glee arrives at the 8th annual TV Land Awards at the Sony Studios in Culver City, California, USA, 17 April 2010 (reissued 31 January 2018). US actor Mark Salling has been found dead at the age of 35, weeks
 Mynd: EPA
Mark Salling.

Nýlega hefur ein stærsta stjarna þáttanna, áðurnefnd Lea Michele sem fór með hlutverk Rachel Berry, verið harkalega gagnrýnd af samleikurum sínum fyrir hegðun sína á tökustað. Samantha Ware sagði frá einelti Michele eftir að Michele lýsti yfir stuðningi við Black Lives Matter í kjölfar morðsins á George Floyd. Ware svaraði tísti Michele, virtist draga í efa einlægni hennar og sagði hana til að mynda „hafa sagst ætla að kúka í hárkolluna hennar ef hún fengi tækifæri til.“

Aðrir samleikarar Michele tóku að einhverju leiti undir með Ware og Heather Morris, sem lék Brittany S. Pierce,  sagði það til að mynda „mjög óþægilegt“ að vinna með Michele. Sjálf baðst Michele afsökunar á hegðun sinni en þetta var þó ekki í fyrsta skipti sem talað hefur verið um samskiptalega erfiðleika hennar. Hún og Rivera áttu oftar en ekki í deilum á setti á meðan upptöku þáttanna stóð og voru sagðar baktala hvor aðra miskunalaust, sem persónur þeirra í þáttunum gerðu raunar líka. 

Þegar þessi grein er skrifuð stendur leit að Riveru enn yfir við Piru-vatn í Kaliforníu. Fjölmargar stjörnur hafa beðið fólk um bænir og góð strauma en meðal þeirra má nefna samleikara Riveru úr Glee , Harry Shum Jr., Heather Morris og söngkonuna Demi Lovato sem lék hlutverk í nokkrum þáttum á árunum 2013-2014 og var í nánu samstarfi við Riveru.