Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mega fara í búð en ekki hitta fleiri en 10 í einu

Mynd með færslu
 Mynd:
Þeir sem eru búsettir hér á landi eða eru íslenskir ríkisborgarar og fara í sýnatöku á landamærunum eiga að viðhafa svokallaða heimkomusmitgát í fjóra til fimm daga, að því er kemur fram í minnisblaði heilbrigðisráðherra til ríkisstjórnarinnar. Fólk má fara út í búð, í strætó en ekki hitta fleiri en tíu í einu. Þá má það ekki faðma, heilsa með handabandi eða umgangast viðkvæma.

Ef fólk í þessum hópi greinist ekki með veiruna í skimuninni á það að forðast mannamót eða veislur þar sem tíu eða fleiri eru samankomnir, ekki vera í samneyti við fólk í viðkvæmum hópum, virða tveggja metra regluna, heilsa hvorki með handabandi né faðmlagi og huga vel að sóttvörnum. Þá er fólki í þessum hópi heimilt að nota almenningssamgöngur, fara í bíltúr og búð og hitta vini og kunningja í litlum hópi. Að fjórum til sex dögum liðnum verður fólki boðið upp á nýtt veirupróf. 

Þá kemur fram í minnisblaðinu að skimun á landamærum verði út þennan mánuð og að þeim tíma liðnum verði staðan endurmetin. Þá verði áfram samkomubann þar sem fleiri en 500 mega ekki koma saman í einu. Einnig verðir óbreyttur opnunartími vínveitinga- og skemmtistaða út júlí, þ.e.a.s. til klukkan ellefu á kvöldin. 

Jafnframt verða gefin út vottorð fyrir þá landsmenn sem hafa fengið COVID-19 og þeir þurfa því hvorki að fara í skimun á landmærun né í sóttkví. Þá fær sóttvarnalæknir skýrari heimildir til þess að skilgreina lönd sem lágáhættusvæði. Þeir sem koma til landsins og hafa dvalið á stöðum þar sem áhætta er skilgreind lítil þurfa hvorki að fara í sýnatöku né sóttkví. Í dag hafa aðeins tvö lönd þessa skilgreiningu, Grænland og Færeyjar. 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV