Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Maxwell neitar sök

Mynd með færslu
 Mynd: Wiki Commons
Ghislaine Maxwell, fyrrum unnusta bandaríska barnaníðingsins Jeffrey Epstein, neitaði fyrir rétti í dag ásökunum um að hún hafi tekið þátt í brotum hans. Lögmenn hennar hafa lagt fram beiðni um að hún verði látin laus gegn greiðslu tryggingar. Maxwell gæti átt yfir höfði sér þrjátíu og fimm ára fangelsi, verði hún fundin sek. 

Maxwell var handtekin í byrjun mánaðarins í New Hampshire í Bandaríkjunum og gefið að sök að hafa áunnið sér traust ungra stúlkna í viðkvæmri stöðu, með það fyrir augum að kynna þær fyrir Epstein. Þá er hún einnig sökuð um að hafa brotið kynferðislega á stúlkum. Maxwell er grunuð um að hafa haldið sig í felum síðasta árið til þess að komast hjá því að verða bendluð við brot fyrrverandi unnusta síns. 

Maxwell kom fyrir rétt í New York í dag og kröfðust lögmenn hennar þess að hún yrði látin laus gegn greiðslu tryggingar. Saksóknarar sögðu Maxwell búa yfir þremur ólíkum vegabréfum og vera líkleg til að flýja land. Lögfræðingar hennar sögðu ekki hættu á því að hún flýði land og fullyrtu að hún væri tilbúin til að láta vegabréf sitt af hendi.  

Stafi smithætta af gæsluvarðhaldi

Þá héldu lögfræðingar Maxwell því fram að það væri áhættusamt fyrir hana að dvelja í gæsluvarðhaldi vegna smithættu og að takmarkanir til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar myndu torvelda samskipti hennar við lögfræðinga. 

Árið 2005 var fyrrum kærasti hennar, barnaníðingurinn Jeffrey Epstein, dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir að misnota fjórtán ára stúlku. Rannsókn hefur leitt í ljós að hann hafi brotið á hundruðum stúlkna, flestum á aldrinum þrettán til sextán ára. Epstein var handtekinn í júlí í fyrra en svipti sig lífi í fangaklefa í ágúst.