Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Landhelgisgæslan sinni auknu eftirliti með fiskveiðum

Mynd með færslu
Mynd úr safni. Varðskipið Þór.  Mynd: Landhelgisgæslan - RÚV
Verkefnastjórn um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni leggur til að Landhelgisgæslan fái aukið eftirlitshlutverk á sjó með fiskveiðum og að Fiskistofa fari með stjórnsýsluþátt verkefnisins. Jafnframt segir í skýrslu sem verkefnastjórn hefur skilað sjávarútvegsráðherra að tryggja þurfi betur að upplýsingar um veiddan sjávarafla séu réttar. Fréttaskýringaþátturinn Kveikur fjallaði fyrir tæpum þremur árum um brottkast, framhjálöndun og vanmátt Fiskistofu til að sinna eftirliti.

Í þætti Kveiks í nóvember 2017 viðurkenndki forstjóri Fiskistofu að stofnunin hefði ekki burði til að fylgjast með hvort lög væru brotin. Þá kom fram að endurvigtun afla væri „alvarlegur veikleiki í regluverkinu“, sem allt benti til að væri misnotaður til að „hagræða tölum“.

Í kjölfarið gerði Ríkisendurskoðun úttekt á Fiskistofu og var hún birt í janúar í fyrra. Þar kom fram að „eftirlit Fiskistofu með vigtun sjávarafla er takmarkað og efast má um að það skili tilætluðum árangri.“ Einnig: „Eftirlit með brottkasti er veikburða og ómarkvisst. Hvorki liggja fyrir skýr árangursmarkmið né árangursmælingar.“ Þá sagði í úttekt Ríkisendurskoðunar að ekki verði séð að „Fiskistofa kanni hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum sé í samræmi við það hámark sem er skilgreint í lögum.“

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra skipaði svo verkefnastjórn til að fara yfir ábendingar Ríkisendurskoðunar. Í skýrslu stjórnarinnar er lagt til að skilgreiningu á tengdum aðilum í sjávarútvegi verði breytt þannig að hún nái til hjóna, sambúðarfólks og barna þeirra. Einnig að ákveðin stjórnunarleg tengsl milli fyrirtækja leiði til þess að fyrirtækin séu talin tengd. Jafnframt að aðilar sem ráða yfir meira en 6% af aflahlutdeild skulu tilkynna Fiskistofu um áætlaðan samruna eða kaup í félagi sem ræður yfir hlutdeild. Og að kaupin komi ekki til framkvæmda nema með samþykki Fiskistofu.

Þá er lagt til að Fiskistofa fái skýrari lagaheimildir til rafrænnar vöktunar. Lagt er til að ávallt verði eitt eftirlitsskip á sjó í fiskveiðilandhelginni á meðan á loðnuvertíð stendur og að mannafli til þess verði tryggður. Einnig er lagt til að ráðist verði í breytingar á þeim heimildum sem Fiskistofa hefur til að beita viðurlögum vegna lögbrota, til að mynda að stofnunin fái heimild til að leggja á stjórnvaldssektir, segir í skýrslu verkefnisstjórnar.