Kærastinn skildi hana eftir með mannýgri górillu

Mynd: RÚV / RÚV

Kærastinn skildi hana eftir með mannýgri górillu

10.07.2020 - 10:32

Höfundar

„Ég hef aldrei verið eins hrædd á ævinni,“ segir líffræðingurinn Ingibjörg Björgvinsdóttir sem lenti í þeirri skelfilegu lífsreynslu að vera ógnað af risastórri fjallagórillu. Allir ferðafélagarnir flúðu en hún lagðist skelfd á jörðina og beið örlaga sinna.

Það hafði lengi verið draumur Ingibjargar að sjá górillur þegar henni bauðst að ferðast til Kongó árið 2005 að heimsækja fjallagórillur í sínu náttúrulega umhverfi. „Líffræðilega eru þetta svo merkilegar skepnur. Þær eru í útrýmingarhættu og mér fannst þetta svolítið síðasti séns og í raun kraftaverk að maður mætti fara að skoða þær í sínu náttúrulega umhverfi,“ rifjar Ingibjörg upp. Hún hélt þá ásamt fríðu föruneyti til Virunga þar sem górillurnar dvelja í þjóðgarði á landamærum Rúanda, Kongó og Úganda. „Þær virða engin landamæri og færa sig á milli. Upphaflega áttum við ekki að fara til Kongó heldur Rúanda en á síðustu stundu hringdu þjóðgarðsverðirnir og sögðu: „Þið komið bara til Kongó. Þær eru ekkert það langt frá.“ Í Kongó blasti við hópnum fagurt fjalllendi og mikill búskapur enda er þarna eitt þéttbýlasta svæði Afríku og státar af mikilli náttúrufegurð.

Mynd með færslu
 Mynd: Ingibjörg Björgvinsdóttir - Aðsend mynd
Górillan ógnaði Ingibjörgu en fékk sér svo bara bambus

„Þetta gerist auðvitað ekki - svo ekki hafa áhyggjur“

Hópurinn hitti fyrir þjóðgarðsverðina og saman héldu þau inn í þéttvaxinn skóginn að leita að górillunum. Þjóðgarðsverðirnir voru vopnaðir og fóru þeir yfir öryggisreglurnar með hópnum. „Þetta eru górillur. Þær eru mjög skyldar okkur erfðafræðilega og til dæmis viðkvæmar fyrir sjúkdómum sem við berum svo það er mikilvægt að halda fimm metra fjarlægð frá þeim,“ segja þjóðgarðsverðirnir við hópinn. Ef karlgórillunum finnst sér ógnað geta þær verið stórhættulegar og því mikilvægt að sýna varkárni. „Ef svo ólíklega vill til að hann fari að æsa sig er öruggasta leiðin að leggjast niður á jörðina og gera sig pínulítinn og undirgefinn. En þetta gerist auðvitað ekki, þið þurfið ekki að hafa áhyggjur,“ segir vörðurinn við hópinn og allir hlæja. Svo er lagt af stað. 

Silfurbakurinn stendur hálfum metra frá og er brjálaður

Eftir um hálftíma leit fundust górillurnar og segir Ingibjörg það hafa verið ævintýri líkast að fylgjast með þeim. „Ég hefði ekki trúað því hvað ég var ánægð að sjá þær, þær voru svo afslappaðar og þeim virtist alveg sama að við værum þarna. Ungarnir voru að leika sér og þær lágu á bakinu að fá sér gras og allt virtist eins og í draumi,“ rifjar Ingibjörg upp. Hópurinn, dolfallinn yfir fegurðinni, tók myndir af öpunum en flestir lögðu sig fram að fara varlega. Ingibjörg hins vegar gleymdi sér aðeins. „Þeir sem þekkja mig vita að ég er með vægan athyglisbrest, sumir segja að ég sé með slæman, og ég var ekki að fylgjast nógu vel með,“ segir hún. Skyndilega heyrir hún torkennilegt hljóð að baki sér, lítur við og sér sér til skelfingar að ferðafélagarnir eru allir á harðaspretti í gagnstæða átt, þar á meðal þjóðgarðsvörðurinn og þáverandi kærasti Ingibjargar. „Ég ætla að halda mínu striki og lít fram fyrir mig.“

Hún mun aldrei gleyma þeirri sjón sem blasti við henni þá. „Silfurbakurinn er í hálfs metra fjarlægð frá mér, alveg brjálaður. Berjandi á bringuna og þetta var ofboðslega hræðileg lífsreynsla,“ segir Ingibjörg. „Ég varð svo hrædd, ég hef aldrei verið eins hrædd á ævinni.“

„Verstu þrjár mínútur lífs míns“

Samkvæmt fyrirmælum lagðist Ingibjörg í jörðina, lokaði augunum og beið örlaga sinna. „Ég beið í alveg þrjár mínútur og þorði ekki að kíkja hvort hann væri farinn. Þetta voru lengstu og erfiðustu þrjár mínútur lífs míns. Ég held að fólk átti sig ekki á því hvað þetta eru stór dýr en hann var alveg upp við mig og þekkti greinilega ekki fimm metra regluna.“

Þegar ljóst varð að Ingibjörg var hólpin var hún hughreyst af hópnum. Kærastinn, sem hafði skilið hana eftir, afsakaði sig með því að segja: „Ingibjörg. Þau hlupu öll í burtu.“ Hann hafði einungis fylgt leiðbeiningum en skammaðist sín samt fyrir að hafa skilið hana eftir. „Greyið, honum fannst að þetta væri það sem ætti að gera í stöðunni,“ segir hún en kærastinn er í dag ekki lengur heitbundinn Ingibjörgu. Hún leggur þó áherslu á að hann sé ágætur náungi þrátt fyrir viðbrögðin og það gladdi hann ekki þegar sagan var endurtekin reglulega. „Honum fannst þetta ekki ein af mínum skemmtilegustu sögum þegar ég sagði hana,“ segir hún og hlær. 

Rætt var við Ingibjörgu Björgvinsdóttur í Sumarmálum.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Api með mannréttindi flytur til Flórída

Mannlíf

Api Ellýjar fundinn