Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Icelandair gæti þurft að fella niður ferðir

10.07.2020 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Icelandair gæti þurft að fella niður 2-5 flugferðir í hverri viku vegna takmarkaðrar afkastagetu í skimunum á Keflavíkurflugvelli en útlit er fyrir að farþegar þar verði fleiri en 2.000 á dag sem er sá fjöldi sýna sem hægt er að greina á degi hverjum. Félagið skoðar nú í samstarfi við Isavia hvernig brugðist verði við þessu ástandi.

Sigrún Össurardóttir, talsmaður Icelandair, segir að hingað til hafi félagið ekki þurft að fella niður flug vegna þessara takmarkana.

„Samhæfingastöð hefur haft samband við okkur vegna þessa og gefið tilmæli um að fella niður um 2-5 flug í viku út júlí. Icelandair er með 8-12 komur flesta dagana í júlí. Þetta yrðu því töluverðar takmarkanir ef af yrði,“ segir í skriflegu svari Sigrúnar við fyrirspurn fréttastofu RÚV.

Í gær voru tekin 2.159 sýni við landamærin.  Það var í fyrsta skiptið sem fjöldi sýna fór yfir 2.000 frá því að landamæraskimun hófst 15. júní.

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir