Hyggjast leggja refsitolla á franskar vörur

10.07.2020 - 16:22
epa04113275 A customer is seen at a luxury shop in the Hong Kong branch of St Laurent, a French luxury goods retailer, in Hong Kong, China, 07 March 2014. Hong Kong is known as a shopping destination for luxury goods due to a tax free system, in contrast to mainland China where high taxes are still slapped on luxury goods.  EPA/ALEX HOFFORD
 Mynd: EPA - Alex Hofford
Bandarísk stjórnvöld áforma að leggja refsitolla á franskar vörur í mótmælaskyni við að Frakkar hyggjast skattleggja bandarísk risafyrirtæki í net- og tæknigeiranum. Innheimtunni verður þó frestað að sinni.

Franska þingið samþykkti fyrir ári hinn svonefnda GAFA skatt, kenndan við netfyrirtækin Google, Apple, Facebook og Amazon. Höfuðstöðvar þeirra eru annars staðar en í Frakklandi og því hafa þau greitt Frökkum litla sem enga skatta, þrátt fyrir umfangsmikla starfsemi. Frönsk stjórnvöld ákváðu að fresta skattlagningunni, sem átti að ganga í gildi um síðustu áramót.

Robert Lighthizer, formaður viðskiptaráðs Bandaríkjanna, greindi frá því á fjarfundi í dag með Chatham House, Konunglegu rannsóknarstofnuninni í alþjóðamálum í Lundúnum, að áformað væri að leggja hundrað prósenta refsitoll á franskar vörur, svo sem osta, snyrtivörur og handtöskur til að svara skattlagningunni á bandarísk netfyrirtæki. Innheimtunni yrði þó frestað þar til Frakkar byrja að innheimta skatta af bandarísku fyrirtækjunum.

Lighthizer viðurkenndi þó að það skapaði viss vandræði að fjölþjóðleg stórfyrirtæki kæmu sér undan skattgreiðslum með því að flytja höfuðstöðvar sínar þangað sem þau gætu komið sér undan því að greiða skatta.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi