Gjaldkeri björgunarsveitar dæmdur í eins árs fangelsi

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Hákon Halldórsson - RÚV
Fyrrum gjaldkeri Björgunarfélags Árborgar var dæmdur í héraðsdómi Suðurlands í dag til tólf mánaða fangelsisvistar fyrir fjárdrátt, umboðssvik og peningaþvætti sem nam tæpum átján milljónum króna. Brotin voru framin á árunum 2010 til 2017.

Maðurinn skal sitja inni í þrjá mánuði en er á skilorði hina níu næstu tvö árin. 

Grunur um brot gjaldkerans vaknaði í mars 2017 þegar hann viðurkenndi að hafa notað viðskiptakort björgunarfélagsins til að kaupa eldsneyti. Honum var vikið frá störfum á meðan rannsókn lögreglu stóð og ákærður í ágúst í fyrra.

Alls voru 438 greiðslur, millfærslur og kreditkortafærslur teknar til umfjöllunar í ákærunni.

 

Maðurinn játaði á sig hluta sakargifta en var fundinn sekur fyrir fjárdrátt sem hann neitaði eða hafði ekki skýringar á þar sem hann hafði einn prókúru á reikninga félagsins og aðgang að heimabanka þess. Við ákvörðun refsingarinnar samkvæmt dómnum var litið til þess að brot ákærða voru skipulögð og stóðu yfir um margra ára skeið.

Björgunarfélagið gerir engar kröfur í málinu

Þess er jafnframt getið að maðurinn hafi náð sátt við Björgunarfélagið Árborg, bætt fyrir brot sín og að félagið geri engar kröfur í málinu.

 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi