Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Flugfreyjur funda með sáttasemjara í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, gerir ráð fyrir að samninganefndir Flugfreyjufélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair muni nýta þær tvær klukkustundir sem ætlaðar eru fyrir fyrsta samningafund dagsins.

Samninganefndirnar hittast klukkan þrjú í dag.

Næstum 75% voru andvíg þeim kjarasamningi sem náðist 25. júní síðastliðinn eftir langar og flóknar samningaviðræður. Þá kvaðst Flugfreyjufélagið hafa komið til móts við Icelandair þannig að það gæti aukið samkeppnishæfni og sveigjanleika. Starfsöryggi flugfreyja hafi þó verið einn mikilvægasti þátturinn í viðræðunum.

Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar nú, segir í yfirlýsingu, sýni að félagsmönnum hafi þótt of langt gengið í hagræðingarkröfum. Icelandair horfir til þess að tryggja rekstrargrundvöll félagsins, verðmæti fyrir þjóðarbúið og mikilvæg störf.