Fimmtíu ár frá eldsvoðanum á Þingvöllum

10.07.2020 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Hálf öld er í dag liðin síðan Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Sigríður Björnsdóttir eiginkona hans og fjögurra ára dóttursonur þeirra, Benedikt Vilmundarson, létust í eldsvoða á Þingvöllum. Forsætisráðherrahjónin höfðu farið í ráðherrabústaðinn á Þingvöllum til að dvelja þar yfir nótt ásamt barnabarni sínu. Þegar hollenskir ferðamenn áttu leið hjá um nóttina sáu þeir bjarma af eldi og komu að bústaðnum alelda.

Bílstjóri forsætisráðherra hafði keyrt hjónin og dótturson þeirra í ráðherrabústaðinn á Þingvöllum fimmtudaginn 9. júlí. Þar hugðust þau dvelja yfir nótt en næsta dag hugðist forsætisráðherra vera viðstaddur héraðsmót á Snæfellsnesi. Vonskuveður var þessa nótt, svo mjög að veðrið feykti tjöldum ofan af sjö hollenskum ferðamönnum sem voru komnir hingað til lands til að taka þátt í hestamannamóti. Fólkið hélt að Valhöll um kvöldið. Þegar þau ætluðu út í bíl klukkan hálf tvö um nóttina sáu þau bjarma sem þau komust fljótt að raun um að væri eldur í bústað. Einn Hollendinganna hélt aftur í Valhöll til að láta vita en hin fóru að bústaðnum. Hann var læstur og allir gluggar lokaðir. Skömmu síðar varð sprenging í bústaðnum, svo öflug að þakið lyftist af húsinu. Í fyrstu var ekki vitað hvort einhver væri í bústaðnum en símtal við ráðherrabílstjórann leiddi hið sanna í ljós. Slökkviliðsmenn sem komu á vettvang fundu líkamsleifar forsætisráðherrahjónanna og dóttursonar þeirra í bústaðnum síðar um nóttina.

Mynd: Skjáskot / RÚV
Útför forsætisráðherra. Svipmyndir af innlendum vettvangi 1970.

„Slíkur atburður er hörmulegri en svo, að orðum verði yfir komið,“ sagði Kristján Eldjárn forseti í yfirlýsingu. „Í einu vetfangi er í burtu svipt traustum forustumanni, sem um langan aldur hefur staðið í fylkingarbrjósti og verið í fyrirsvari í þjóðlífi voru, og með honum ágætri konu hans, er við hlið hans hefur staðið með sæmd og prýði, og ungum sveini, sem var yndi þeirra og eftirlæti. Hér er skarð fyrir skildi, en á þessari stundu kemst ekki annað að í huga vorum en sorg og samúð.“

Bjarni Benediktsson hafði verið forsætisráðherra í sex ár og átta mánuði þegar hann lést ásamt eiginkonu sinni og dóttursyni í eldsvoða. Aðeins Hermann Jónasson og Davíð Oddsson hafa setið lengur samfellt á forsætisráðherrastóli.

Mynd: Skjáskot / RÚV

Bjarni setti mark sitt á íslenskt samfélag. Hann varð prófessor í lögfræði árið 1932, aðeins 24 ára að aldri. Sama ár var hann kjörinn bæjarfulltrúi í Reykjavík, gegndi þeirri stöðu fyrst í áratug og aftur frá 1946 til 1949. Bjarni var borgarstjóri í Reykjavík 1940 til 1947. Hann var þingmaður frá 1942 til 1946 og aftur frá 1949 til dánardags. Bjarni var ráðherra dómsmála flest ár, frá 1949 til 1963, og fór jafnframt um lengri eða skemmri tíma með utanríkismál, menntamál, kirkjumál, heilbrigðismál og iðnaðarmál í ríkisstjórn. Í nóvember 1963 tók hann við embætti forsætisráðherra af Ólafi Thors. Því embætti hafði hann reyndar gegnt síðustu mánuði ársins 1961 í forföllum Ólafs.

Bjarni var fenginn til að gera þær breytingar á stjórnarskrá sem nauðsynlegar væru vegna stofnunar lýðveldis. Hann var einnig aðalritstjóri Morgunblaðsins um skeið og eftir að hann lét af því starfi skrifaði hann Reykjavíkurbréf í blaðið um langt árabil.

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur skrifaði um Bjarna í bók um forsætisráðherra Íslands sem kom út árið 2004. Hann sagði að Bjarni hefði eflaust verið í forystu Sjálfstæðisflokksins nokkur ár til viðbótar ef honum hefði enst aldur til. Þá væri heldur ólíklegt að átökin milli Geirs Hallgrímssonar og Gunnars Thoroddsen hefðu magnast með þeim hætti sem raunin varð og líklegt að landhelgismálin hefðu þróast á annan hátt. 

Bjarni og Sigríður létu eftir sig fjögur börn, þau Björn, Guðrúnu, Valgerði og Önnu. Björn varð mennta- og dómsmálaráðherra eins og faðir hans og Valgerður sat einnig á þingi.

Forsíða Alþýðublaðsins 10. júlí 1970.
Forsíða Vísis 10. júlí 1970.
Forsíða Morgunblaðsins 11. júlí 1970.
Forsíða Tímans 11. júlí 1970.
Forsíða Þjóðviljans 11. júlí 1970.
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi