Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Farið frjálslega með orðalag í samningunum

Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Dögg Auðunsdóttir - RÚV
Farið var frjálslega með orðalag í samningum sem fyrrverandi ríkislögreglustjóri gerði við yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna um breytingar á launafyrirkomulagi þeirra.

Þetta kemur fram í álitsgerð Forum lögmanna. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri byggði þá ákvörðun sína um að vinda ofan af umræddu samkomulagi á þeirri álitsgerð.

Í samningunum er tiltekið að þeir séu í samræmi við stofnanasamning embættisins og Landssambands lögreglumanna og að þeir hafi verið gerðir að höfðu samráði við Fjársýslu ríkisins.

„Máli hallað“ í samningunum

Í álitsgerðinni er hins vegar vísað í tölvuskeyti forstöðumanns launasviðs Fjársýslu ríkisins. Í því staðfestir forstöðumaðurinn að hafa fengið símtal frá embætti ríkislögreglustjóra þar sem tilkynnt var um breytingar á samningum um starfskjör yfir- og aðstoðaryfirlögregluþjóna, en að þær breytingar hafi þá þegar verið ákveðnar.

Minnist forstöðumaðurinn þess ekki að hafa verið beðinn um leiðbeiningar um gerð samninganna.

Í álitsgerðinni er beinlínis sagt, hvað þetta atriði varðar, að hallað hafi verið réttu máli í samningunum við starfsmennina. 

Yfirlögregluþjónar gera alvarlegar athugasemdir

Yfirlögregluþjónarnir hafa tvær vikur til að skila inn andmælum og það ætla þeir að gera. Kristján Thorlacius lögmaður vinnur að álitsgerðinni fyrir þá. Í skriflegu svari til fréttastofu segir Kristján að gerðar séu alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaða ákvörðun ríkislögreglustjóra og álitsgerðina sem ákvörðunin byggist á. Bæði út frá stjórnsýslulegum forsendum og réttindum yfirlögregluþjónanna á grundvelli reglna og samningaréttar.

Láti ríkislögreglustjóri verða af fyrirætlunum sínum kann að vera að málið komi til kasta dómstóla en samkvæmt heimildum fréttastofu hafa tveir yfirlögregluþjónar fallið frá samkomulaginu.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, fól ríkislögreglustjóra að skoða samningana eftir að kjara- og mannauðssýsla ríkisins sagði að þeir þörfnuðust frekari skoðunar. Hún vildi lítið tjá sig um álitsgerðina á meðan andmælaréttur er í gildi. „Forstöðumenn hafa almennt heimild til að gera slíka samninga en þeir verða auðvitað að uppfylla þær skyldur að vera innan stofnanasamnings, í takt við markmið hans og líka auðvitað í takt við þær breytingar sem eru að verða á launakjörum eða starfi þessara starfsmanna.“

Í álitsgerðinni segir að ekkert þeirra atriða sem Áslaug nefnir hafi verið fyrir hendi.