„Ekki í þessu til að vera með“

Mynd: María Björk Guðmundsdóttir / RÚV

„Ekki í þessu til að vera með“

10.07.2020 - 20:35
Körfuboltamaðurinn Martin Hermannsson kveðst vera spenntur að flytja til Spánar og leika körfubolta með Valencia. Félagið staðfesti komu Martins í morgun, hann segir markmið félagsins vera mjög skýr.

 

Martin, sem verður 26 ára á árinu, skrifaði í gær undir samning við Valencia til tveggja ára, með möguleika á árs framlengingu.

Liðið var í undanúrslitum um spænska meistaratitilinn nú á dögunum en féll úr keppni eftir tap gegn Baskonia sem urðu að lokum spænskir meistarar. Martin varð Þýskalands- og bikarmeistari með Alba Berlín á tímabilinu sem lauk í síðasta mánuði. Valencia er eitt af fjórum spænskum liðum í EuroLeague, næst sterkustu körfuboltadeild heims.

„Þetta er búið að vera blautur draumur síðan ég sá Jón Arnór spila þarna árið 2005. Þannig það má segja að þetta sé draumur að rætast,“ sagði Martin í samtali við RÚV í dag.

Mörg félög höfðu áhuga á að fá Martin í sínar raðir. Að lokum hafi ákvörðunin verið nokkuð auðveld. Hann segir markmiðin hjá honum sjálfum og Valencia vera háleit.

„Það er bara að spila um alla titla og í fyrsta lagi koma sér í úrslitakeppnina á Spáni og í EuroLeague. Maður er ekkert í þessu til að vera með, maður er bara kominn á það level og ég veit að það er bara markmiðið hjá þeim í öllu.“

Nánar er rætt við Martin í spilaranum hér fyrir ofan.