Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Andmæla áformum ríkislögreglustjóra um kjarabreytingar

Mynd með færslu
Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn við embætti ríkislögreglustjóra.  Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Yfirlögregluþjónar hjá embætti ríkislögreglustjóra ætla ekki að taka því þegjandi að Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, ógildi þær ólitlu kjarabætur sem forveri hennar, Haraldur Johannessen, samdi um við þá á síðasta ári, heldur hyggjast þeir andmæla þeim áformum formlega.

Þetta kemur fram í frétt mbl.is, þar sem rætt er við einn yfirlögregluþjónanna sem um ræðir, Jón F. Bjartmarz.  Jón segir lögmann Landssambands lögreglumanna telja að lögfræðiálitið, sem Sigríður Björk byggir ákvörðun sína á, fái ekki staðist.

Fram kom í fréttum rúv í kvöld, að Sigríður Björk hafi leitað lögfræðiálits á þeim gjörningi Haralds að færa fasta yfirvinnutíma níu yfirlögregluþjóna inn í grunnlaun þeirra, sem aftur leiddi til stóraukinna lífeyrisréttinda níumenninganna. Þetta gerði hún að undirlagi dómsmálaráðherra, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur.

Ríkislögreglustjóra óheimilt að skuldbinda LSR

Niðurstaða lögfræðiálitsins var í stuttu máli sú, að Haraldur hefði ekki haft nokkra heimild til að gera slíka samninga, að engin málefnaleg rök hafi verið fyrir þeim og eina markmið þeirra að auka lífeyrisréttindi umræddra starfsmanna verulega, sem þýddi hundraða milljóna útgjaldaauka fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Sjá einnig: Æðstu stjórnendum boðin betri kjör

Lögum samkvæmt sé ríkislögreglustjóra ekki heimilt að skuldbinda LSR með þessum hætti og því séu samningarnir ógildanlegir. Sigríður Björk staðfesti í samtali við fréttastofu að hún hafi tilkynnt yfirmönnum hjá embættinu að hún hyggist vinda ofan af samkomulaginu sem forveri hennar gerði við þá, og hafa þeir tvær vikur til að skila inn andmælum.

Sjá einnig: Hafði fulla heimild fyrir nýjum samningum

Þau andmæli eru þegar í vinnslu, samkvæmt Jóni, sem bendir á að Áslaug Arna hafi lýst því yfir á sínum tíma að Haraldur hefði fulla heimild til að gera títtnefnda samninga, og það hefði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra líka gert. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV