Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Allt fullt í Skaftafelli og fólki vísað frá

Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV/Landinn
Starfsfólk tjaldsvæðisins í Skaftafelli hefur í morgun þurft að vísa fólki sem vill tjalda á svæðinu frá vegna fjöldatakmarkana. Stefanía Ragnarsdóttir, fræðslufulltrúi í Vatnajökulsþjóðgarði sem rekur tjaldsvæðið, segir flesta hafa skilning á þessum aðstæðum, verið sé að fylgja fyrirmælum sóttvarnalæknis.

Að sögn Stefaníu er blíðskaparveður í Skaftafelli og svæðið eins og best verður á kosið. „Við erum að reyna að fylgja hérna leiðbeiningum Embættis landlæknis í hvívetna þannig að við erum með of marga gesti á tjaldsvæðinu eins og er,“ segir Stefanía.

 Hvað eru margir á tjaldsvæðinu núna? „Það má hafa 500 manns í hverju sóttvarnarrými og við vorum með 450 í gær. Við erum búin að vera að telja ofboðslega vel inn á tjaldsvæðið og svo í gærkvöldi náðum við upp í 500. Þannig að því miður erum við núna að vísa fólki frá tjaldsvæðinu.“

Stefanía segir að vísa hafi þurft tugum manns frá. Fólki hafi verið bent á tjaldsvæðin á Kirkjubæjarklaustri, Hörgslandi, Svínafelli og Höfn í Hornafirði. Hún segir leitt að þurfa að grípa til þessa, en ekki sé um annað að ræða.

„Þetta geta auðvitað verið vonbrigði af því að fólk er jafnvel búið að keyra um langan veg.  En flestir sýna þessu nú skilning vegna aðstæðna í samfélaginu og vegna COVID.“