Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Allir um­sækj­endur með stúdents­próf fá inngöngu í HA

10.07.2020 - 15:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Háskólaráð Háskólans á Akureyri hefur samþykkt að allir umsækjendur með stúdentspróf fái jákvætt svar um skólavist í dag. Þetta er þriðja árið í röð sem skólinn fær yfir 2.000 umsóknir.

Ákvörðunin byggð á skuldbindingu stjórnvalda

Í tilkynningu frá skólanum segir að eftir samtöl við stjórnvöld um stöðuna í samfélaginu og stöðu Háskólans á Akureyri hafi verið ákveðið að samþykkja umsóknir allra sem hafa stúdentspróf.

Ákvörðun háskólaráðs er byggð á skuldbindingu stjórnvalda um fjármögnun háskóla og þeim aðstæðum sem upp eru komnar í íslensku samfélagi vegna faraldursins. 

Mikil umræða um stöðu skólans

„Síðustu tvær vikur hefur átt sér stað mikil og góð umræða um stöðu Háskólans á Akureyri og þá staðreynd að mikil aðsókn síðustu ár hefur þrengt að möguleikum okkar til að fjölga nemendum enn frekar. Yfirlýsing stjórnvalda og stuðningur menntamálaráðherra við skólann og háskólakerfið í heild opna á þann möguleika að unnt verði að fjölga nemendum í haust,“ er haft eftir Eyjólfi Guðmundssyni rektor á vefsíðu skólans.