Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Vonar að Eurovision-safn á Húsavík verði að veruleika

09.07.2020 - 09:26
Mynd: Maarten Wijnants / Unsplash
Heimsóknir á síðu Húsavíkurstofu hafa margfaldast eftir frumsýningu Eurovision-myndar Will Ferrells. Hinrik Wöhler, forstöðumaður Húsavíkurstofu, segir að hann finni fyrir miklum áhuga á kaupstaðnum erlendis frá. Hann segist spenntur fyrir hugmyndum um að reisa Eurovision-safn í bænum. Rætt var við Hinrik í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Kvikmynd Ferrels var frumsýnd þann 26. júní. Hinrik segist hafa séð aukningu í heimsóknum á síðu Húsavíkurstofu og samfélagsmiðlum strax í kjölfarið. „[Umferðin] stökk upp um nokkur hundruð prósent þegar myndin var frumsýnd 26. júní. Maður sá þetta alveg skýrt og greinilega á heimsóknunum,“ segir hann. 

Hinrik er viss um að kvikmyndin sé frábær kynning fyrir bæinn. Hann segir jafnframt að viðhorf bæjarbúa til kvikmyndarinnar sé alla jafna mjög jákvætt. „Maður heyrði Volcano Man og Húsavíkurlagið óma um götur bæjarins. Ég held að bæjarbúar séu bara mjög sáttir,“ segir Hinrik og bætir við að hann átti sig að sjálfsögðu á því að verið sé að gera grín að Íslendingum í myndinni. „En við getum tekið því.“

Hinrik segir að Húsavíkurstofa stefni á að höfða til Eurovision-aðdáenda. Söngvakeppnin á sér dyggan aðdáendahóp og fer fram ár hvert. „Ég held að það sé alveg klárt mál að fjölmennasta Eurovision-partýið verður í Rotterdam og á Húsavík, allavega í maí 2021,“ segir hann.

Hinrik segir að það fari ekki á milli mála að Húsavík verði algjör Eurovision-bær. Vangaveltur um að koma á fót Eurovision-safni hafa skotið upp kollinum og Hinrik segist mjög jákvæður gagnvart því. „Það er frábær hugmynd og ég vona svo sannarlega að það verði að veruleika. Allir hefðu gaman að því.“