Kórónuveirufaraldurinn setti mark sitt á golftímabilið vestanhafs þar sem fjölmörgum mótum hefur ýmist verið frestað eða aflýst. Fjögur mót hafa farið fram frá því að keppni hófst að nýju um miðjan júní en Woods hefur misst af þeim vegna bakmeiðsla.
Hann greindi þó frá því á Twitter-síðu sinni í dag að hann myndi snúa aftur á völlinn þegar Memorial-mótið fer fram í Ohio-ríki í næstu viku.
„Ég hlakka til að spila á Memorial-mótinu í næstu viku. Ég hef saknað þess að fara út á völl og keppa við strákana og get ekki beðið eftir að komast á völlinn.“ segir Woods í tísti í dag.
Woods hefur ásamt Sam Snead unnið flesta sigra á PGA-mótaröðinni í sögunni, 82 talsins. Síðasti sigurinn var á Zozo-meistaramótinu í Japan í október í fyrra.
Þá hefur hann unnið Memorial-mótið oftast allra, eða fimm sinnum, síðast árið 2012. Mótið hefst næsta mánudag en þar verða Jon Rahm, Webb Simpson, Jordan Spieth og Justin Rose einnig á meðal þátttakenda.
I’m looking forward to playing in the @MemorialGolf next week. I’ve missed going out and competing with the guys and can’t wait to get back out there.
— Tiger Woods (@TigerWoods) July 9, 2020