Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þórunn og Steingrímur óánægð með fangelsislokun

Mynd með færslu
Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsíknarflokksins (t.v.) hefur þegar sent Áslaugu Örnu SIgurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra erindi vegna lokunar fangelsisins á Akureyri Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Forseti Alþingis og þingflokksformaður Framsóknarflokksins gagnrýna þá ákvörðun Fangelsismálastofnunar að loka fangelsinu á Akureyri og segja þetta ganga þvert gegn yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjölga skuli opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins.

Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins. Þar er rætt við þau Þórunni Egilsdóttur, þingflokksformann Framsóknarflokksins, og Steingrím J. Sigfússon, þingmann Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, en bæði eru þau þingmenn norðausturkjördæmis.

Þórunn segir ákvörðun ótæka og afleita og hyggst beita sér gegn henni innan þingflokksins og ríkisstjórnarinnar. Hefur hún þegar sent fyrirspurn á Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, vegna málsins.

Steingrímur vonast líka eftir því að ákvörðunin um að loka fangelsinu verði endurskoðuð. Í samtali við Fréttablaðið segist Steingrímur ekki skilja hvernig mönnum deitti í hug að taka möguleikann á að fangelsa menn af heilu landsvæði, enda sé það ákveðið sjónarmið „að þeir sem þurfa að sitja sína refsingu geti gert það eins nálægt heimaslóðum og hægt er.“