Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þórólfur: 500 manna hámark út sumarið

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Hámarksfjöldi á samkomum út ágúst verður líklega ekki meiri en 500 manns. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi Almannavarna.

Rýmkað á landamærum og barir opnir lengur

Hugsanlegt er að afgreiðslutími vínveitinga- og skemmtistaða verði lengdur fram yfir ellefu á kvöldin frá mánaðamótum, líklega til miðnættis eða klukkan eitt. Þórólfur segir að um mánaðamótin sé von á nýjum áherslum í landamæraskimun en henni verði þó ekki hætt. Áfram verði hámarkið tvö þúsund sýni: 

„Frá og með næstu mánaðamótum, ef reglur verða rýmkaðar og við munum hætta að skima ákveðna hópa, þá mun það að sjálfsögðu leiða til þess að fleiri farþegar koma inn í landið en nú er. Það eru heldur ekki áform af minni hálfu að mæla með rýmkun reglna um hámarksfjölda á fjöldasamkomum. Reglurnar eru núna 500 manna hámark. Ég tel óráðlegt að auka það að sinni og tel því líklegt að ég muni áfram mæla með 500 manna hámarki út ágústmánuð. Það er hins vegar til skoðunar af minni hálfu að mæla með því að lokunartími skemmtistaða og veitingastaða verði rýmkaður frá ellefu að kvöldi. Og líklega mun ég gera það nú fyrir næstu mánaðamót,“ segir Þórólfur.